Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

ykkar einlæg á fjölunum

Þarna er ég alveg í steik í Ef væri ég gullfiskur hjá Leikfélagi Hofsóss. Frumsýning annað kvöld, 23.3. kl. 21:00 í Höfðaborg, miðapantanir í síma 893 0220 frá 13-18... Sjá t.d. frá æfingum á http://www.holar.is/fr390.htm og á http://www.skagafjordur.com/index.php?pid=511&cid=7976 Vildi bara svona láta ykkur öll vita af þessu!

Ef væri ég gullfiskur


hús með sál - eða allavega hljóð

skolahus3 Það er bara eitt sem getur orðið óþægilegt við vinnuaðstöðuna mína; þessar fáu stundir þegar húsið tekur undir með vindinum og ýlir mjóum rómi um napran vind á glugga. Það er reyndar meiri rödd í þessu húsi og það geymir sögur um lífið hér í nærfellt heila öld. Skrifstofan mín var áður heimavistarherbergi og kallað Mosfell, þar voru mest 4 strákar hefur mér skilist af mönnum sem hafa komið að vitja fornra slóða. Annars eru alltof miklar eyður í sögu staðarins þegar kemur að almúganum; skólapiltum, vinnufólki, ráðsmönnum og ráðskonum - það voru nú ekki bara biskupar hér á Hólum.

Viti konur og menn - haldiði ekki að húsið hafi steinhætt að væla rétt á meðan ég var að blogga þetta. Það er náttúrlega svo vant að virðingu sinni að það lætur þennan tón ekki um sig spyrjast! Svo gerist þetta nú svo sjaldan, hér er skjól í norðanáttinni og sunnanvindurinn sem getur orðið hvassastur á vorin og haustin er bara hnjúkaþeyr úr Tröllaskaganum.


frumsýning á föstudaginn

Jæja, nú líður að því: Leikfélag Hofsóss ætlar uppá dekk með Ef væri ég gullfiskur. Allt að smella, spennan magnast, fann karakterinn í skónum. Merkilegt hvað hann getur legið í proppsinu, áttaði mig á þessu þegar ég lék konu með ógurlega ljótt og púkalegt veski og uppgötvaði að þetta veski var alveg hún. Þá sá ég náttúrlega hvað þetta var í raun og veru gerðarlegt veski. Semsagt; bara svo þið vitið það þá er frumsýning í Höfðaborg 23.3. - allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

veður og færð hamlar listrænni tjáningu

Nú er búið að fella niður æfingu í kvöld vegna veðurs, einn leikarinn veðurtepptur í Reykjavík - greinilega fúlt veður þar í kring, slys og óhöpp. Ég næ allavega að fara yfir nokkrar ritgerðir í menningartengdri ferðaþjónustu í viðbót. Annars stefnir bara rólegt kvöld heima með köllunum, fara aðeins yfir rulluna eða kannski bara koðna niður fyrir framan sjónvarpið? Líklega verður ekki bjartara á perunni en það, bara svona lítil týra... janfeb07 004


svona góður hríðardagur

Ég er nú lúmskt ánægð með þessa hríð, var farin að sakna þess að hafa ekki kafsnjó. Átti ljúfa endurfundi við Nokiastígvélin áðan til að geta öslað snjóinn milli húsa, ef þetta tekur ekki strax upp verður fínasta gönguskíðafæri í Hólaskógi næstu daga. Auðvitað er þetta bölvað vesen, lokað í Tindastól vegna veðurs og varð að fresta Vinnuvöku skagfirskra kvenna og svo getur nú verið að fari mesti glansinn af hríðinni þegar við Helgi förum að huga að því að komast á leikæfingu útí Hofsós á eftir. Ég skil samt alveg konugreyið í Gullna hliðinu sem var orðin hundleið á öllu blíðviðrinu í himnaríki...


þetta líst mér vel á

Þetta eru góðar fréttir, þetta ætti auðvitað að vera ríkur þáttur í því sem við köllum lífsleikni í samtímanum. Við verðum að læra að lesa í myndmál ekkert síður en að læra að lesa ritað mál - hlakka til að heyra meira um þetta.
mbl.is Börn læri að lesa auglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

það er kúl að vera í kvenfélagi

Ég er í Kvenfélagi Hólahrepps og hef gaman af því. Það spurði mig kona að því þegar kvenfélagið mitt barst í tal hvað væru margar með bílpróf, ég sagði að við værum nú allar komnar með bílpróf. Það kom ljós að hún var að meina hvað væru margar hættar að keyra sökum aldurs! Staðan í hennar sveit er víst þannig að það horfir til vandræða með fundahöld vegna þess hve fáar keyra. Kvenfélög eru sjálfsagt eins misjöfn og þau eru mörg, en hér fjölgar bara í félaginu og ég er ekki lengur í yngri deildinni.

Það er ákveðinn feminismi að vera í kvenfélagi. Feminismarnir eru nefnilega svo margir og mismunandi. Félagið vill og getur lagt samfélaginu mikið lið og eiginlega fátt í þessum heimi sem er okkur óviðkomandi. Formlegheitin eru í lágmarki, markmiðið aðallega að hafa gaman af því að vera til. Það er dálítið táknrænt að við eigum vinakvenfélag því vinátta er það sem vex af því að vera saman í félagi. Það er kvenfélagið Tilraun í Svarfaðardal, en það er aldalöng hefð fyrir miklum samskiptum yfir Tröllaskagann.

Því lengur sem ég er í kvenfélaginu því afslappaðri verð ég fyrir karlaklúbbunum, sækjast sér um líkir eða eins og Gréta Sjöfn vinkona segir oft: Gott er að vera í góðum hópi og gerast honum líkur.

 


hvernig var þetta nú aftur - vilji er allt sem þarf?

Það er að koma illilega í ljós að það að leggja fram nýtt frumvarp til jafnréttislaga á 8. mars var fyrst og fremst kosningainnlegg hjá hæstvirtum félagsmálaráðherra. Dagurinn var varla liðinn, sem byrjaði á að kynna frumvarp sem þverpólitísk sátt væri um þegar málið var allt í einu komið á frumstig þegar Samfylkingin fór að þrýsta á um að það yrði bara tekið og afgreitt!

Í morgun var talsmaður Framsóknarflokksins hinsvegar að tala fyrir því að auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar yrði samþykkt þó fyrirvarinn væri stuttur - er meiri sátt um það en aukið jafnrétti?

Viðskiptablaðið gaf tóninn; er ekki bara allt í lagi er spurt í leiðara þess, eru þessi gömlu jafnréttislög ekki bara fín? Með öðrum orðum er nokkuð mál að mismuna helmingi þjóðarinnar með 16% launamun? Viðskiptablaðið óttast aukið valdsvið Jafnréttisstofu til að framfylgja því að fá upplýsingar til að byggja á úrskurði sína um hvort jafnréttislögum sé hlýtt - þá hrikalegu kröfu að erindum stofnunarinnar sé svarað! Þetta er bara eins og að skattstofur fái að afla gagna um hvort skattalög séu brotin. Vá þvílík áþján fyrir atvinnulífið! Það er alger skammsýni af Viðskiptablaðinu að fagna ekki þeirri byltingu sem yrði í atvinnulífinu og þjóðlífinu öllu ef jafnrétti kynjanna yrði meira en tómur lagabókstafur.

Nú reynir á hvaða stjórnmálaflokkar hafa jafnréttisstefnu sem stenst!


ótrúlegt!

Það er alveg einstaklega skondið fyrir okkur skagfirðinga að horfa uppá Vg slá sig til riddara á stefnu sinni í umhverfismálum. Þetta stjórnmálaafl var í meirihluta í sveitarstjórn hér í Skagafirði í fjögur ár, allt síðasta kjörtímabil og áorkaði engu, takið eftir: ENGU í umhverfismálum. Það var ekki fersentimeter friðaður í Skagafirði á tímabilinu og þessi flokkur bar aldrei fram tillögu um það sem þeir halda fram að sé þeirra helsta baráttumál; friðun Jökulsánna.

Þátttöku í Staðardagskrá 21 var hætt, ekkert var gert í að koma á flokkun sorps, engar lausnir á þeim vanda að sorpurðunarsvæði Sauðárkróks er á undanþágu. Það var dálítið talað um hunda - og kattahald í þéttbýli í umhverfisnefnd undir forystu þessa "umhverfisflokks". Áhugasamir geta kynnt sér fundargerðir sveitarstjórnar og nefnda í Skagafirði á www.skagafjordur.is - að þeim lestri loknum ættu umhverfissinnar alvarlega að spyrja sig hvort Vg er umhverfissinnaður flokkur á borði eða bara í orði.


mbl.is „Vísbendingar um að VG svari eftirspurn eftir framboði umhverfisverndarsinna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

gott mál!

Þetta var flott hjá bændasamtökunum og mjög skiljanleg ákvörðun af hálfu Radisson hótelanna, sem hafa metnaðarfulla stefnu um menningarlega fjölbreytni og mannvirðingu sem sjá má á þeirra vefsetrum. Sjá frétt á vef landbúnaðarins: http://www.bondi.is/landbunadur/wgbi.nsf/key2/tbjn6ynh8c.html

Ég er stolt af þeim fyrir að taka afstöðu gegn klámvæðingu áfangastaðarins Reykjavík!


mbl.is Hætt við klámráðstefnu hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband