Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

í framhaldi

af síðustu færslu langar mig að deila þessu með ykkur

þrír dagar fram að sumaropnun

- hvernig á ég að koma starfsfólkinu mínu inní málin!?? spurði mig maður á aðalfundi ferðamálasamtaka í ónefndum landshluta. Rétta svarið er náttúrlega: Það veit ég ekki! Þrír dagar er ekki nærri nóg. Það er og verður viðvarandi vandamál að manna framlínuna í ferðaþjónustu ef við sættum okkur endalaust við að ferðaþjónusta sé ekki framtíðarstarf og að þjálfunin fari einungis fram í djúpu lauginni. Og ef ekki er hægt að manna framlínuna með fólki sem getur tekið vel á móti gestum erum við einfaldlega í vondum málum.

Ferðaþjónustan þarf að fara að hugsa eins og heilbrigðisgeirinn, fjármálageirinn, verkfræðin: Horfast í augu við það að hún er þekkingariðnaður. Nám og starf í þessari grein er lífsstarf þar sem fólk á val um fjölbreytt störf með mismunandi ábyrgð og síðast en ekki síst: Það getur menntað sig til þessara starfa. Ferðaþjónustan þarf að kynna sig sem starfsvettvang þar sem hægt er að ná starfsframa með aukinni reynslu og ekki síst: menntun. Framtíðarsýn meirihluta ungmenna í dag er háskólanám og ferðaþjónustan þarf að kynna rækilega þá möguleika sem greinin býður bæði í starfsvali, námi með starfi, námi á framhaldsskólastigi og í háskólanámi. Reyndar þarf að byrja að kynna þessa grein miklu fyrr fyrir hugsanlegu starfsfólki.

1. Það þarf að byrja að fræða börn um þetta starfssvið alveg niður í leikskóla; hvernig væri að bæta leiðsöguleiknum við búðarleikinn og bílaleikinn? 2. Það eru námsgreinar í grunnskóla sem hægt er að gera miklu meira aðlaðandi og lærdómsríkari með tengslum við ferðaþjónustu: Lífsleikni, samfélagsfræði, íslenska, erlend tungumál osfrv. osfrv. Ein besta leiðin til að læra er að þurfa að miðla fróðleiknum til annarra: t.d. ferðafólks.  3. Í framhaldsskóla eru margir nemendur þegar komnir með reynslu af störfum við ferðaþjónustu, þar eru tengslin t.d. við málabraut augljós, en ekki síður rekstrargreinar og að sjálfsögðu matreiðslu og framreiðslu - greinar sem væri hægt að gæða miklu lífi með því að tengja við starfsreynslu nemenda. 4. Það verður að gera ungu fólki grein fyrir því að ferðaþjónusta er ekki bara aukastarf í fríum eða með skóla.  Á þessu sviði er hugsanlegt framtíðarstarf og það stendur til boða nám í ýmsum starfsgreinum og ferðamálafræðum á háskólastigi, nám sem hentar þeim sem starfa við stjórnun, stefnumótun og eigin rekstur. Það er meira að segja í boði fjarnám sem hentar með vinnu.


hnegg hrossagauksins

er einn af vorboðunum og þegar ég var lítil kenndu foreldrar mínir mér þá þjóðtrú að það hefði spádómsgildi úr hvaða átt maður heyrði hneggið fyrst á vorin. Nú man ég þetta svolítið óljóst en er nokkuð viss um að vilja heldur heyra hann í austri; auðnugaukinn eða suðri; sælugaukinn heldur en norðri nágauk eða vestri vælugauk.

Nú veit ég ekki hverju skal trúa á þessu vori. Í nótt kvakaði hrossagaukur þessi ósköp sunnan undir svefnherbergisglugganum okkar - en hneggjaði ekki. Og í morgun kíkti ég á vef Háskólans á Hólum og er þar ekki komin frásögn og hljóðupptaka af hneggi gauksins. Þannig að fyrsta hrossagaukshneggið sem ég heyrði á þessu vori var úr tölvunni - sem er reyndar sunnan við mig þar sem ég sit norðan við lyklaborðið... Ætli mér sé óhætt að taka þetta tvennt til marks um að fyrir þessu sumri spái sælugaukur?


meira af þessum fundi

er að finna hérGHíræðustól15408ljosmErlaBilBjarnardottir

úps - hvað sagði ég?

skyldi ég hafa sagt eitthvað hneykslanlegt í fyrirlestrinum í gær? Getur verið einhver önnur ástæða fyrir að það eru mörg ósvöruð símtöl frá útvarpinu á símanum mínum? Nema náttúrlega ég hafi sagt eitthvað að viti, hver veit? Það kemur kannski í ljós í Speglinum á eftir.


dagurinn byrjar dásamlega

sól skín í heiði - en það var svolítið svalt í morgunsárið. Forsetahjónin lentu á Alexandersflugvelli við Sauðárkrók í morgun og þar tók ungt fólk á móti þeim - og eins og sést á myndinni með þessari frétt endurgalt Dorrit þeirra hlýlegu móttökur.

ég vildi vera á Akureyri

á morgun. Það er reyndar svolítið framandi tilfinning, viðurkenni það að mér líður nú allajafna betur í næstu sveit eða fyrir vestan eins og þeir segja fyrir norðan. Það er ekki bara útaf því hvað mælist mikið jafnrétti á Akureyri, nei þetta er einsog hver önnur sólarhringspest og tengist því að á morgun verður merkilegt málþing við Háskólann á Akureyri um íslensku í háskólum. Það er reyndar ekkert svo jafnréttislegt, það tala bara kallar þar en þeir munu tala um mikilvægt mál - íslenskuna sem samskiptamál í fræðaheiminum. Veitir kannski ekki af, á auglýsingaborðanum á þessum miðli má m.a. lesa eftirfarandi skilaboð frá íslenskum háskóla; taught completely in english og ég tók eftir því þegar ég var að tékka á dagskrá málþingsins góða sem ég kemst því miður ekki á, að slóðin á vef Háskólans á Akureyri er www.unak.is sem stendur væntanlega fyrir University in Akureyri. Sú skoðun er víða uppi nú um stundir að það sé miklu betra á tímum hnattvæðingar að nota ensku sem samskiptamál. Það á við þegar viðmælendur eiga það mál eitt sameiginlegt - en enskan er bara eitt af þeim málum sem við höfum til að hugsa á. Það að hugsa á fleiri en einu tungumáli er ekki bara spurning um þýðingu hugtaka og hugmynda heldur er það skapandi, býður uppá fleiri sjónarhorn og þarmeð fleiri túlkunar og mögulegan skilning. Tungumál er menningararfur - okkur var trúað fyrir þessu tungumáli, við fengum það í vöggugjöf og það er okkar mál.

vinnufélagarnir

eru að standa sig, Mette Mannseth og Þórarinn Eymundsson í fyrsta og öðru sæti í KS deildinni. Líf og fjör á hrossabraut þessa dagana og í gærmorgun mætti ég reiðkennslumeistaranum Eyjólfi Ísólfssyni á leiðinni í vinnuna. Sem er ekki í frásögur færandi nema að hann var með stóran bolta í fanginu, svona leikfimibolta svo ég spurði náttúrlega hvort hann væri farinn að stunda Fit Pilates. Nei, það var nú ekki ástæðan þó okkur þætti það óneitanlega skemmtileg tilhugsun en málið er að reiðkennararnir eru að nota boltana til að kenna nemendum meira um jafnvægi. Ég held að þetta sé bráðsniðugt - alla vega gerði ég þá uppgötvun í mínum fyrsta Fit Pilates tíma að það er líklega ekki bara hún Grána mín sem er misstyrk...

að vera þar sem hlutirnir gerast

er ótrúlega spennandi og það hefur varla verið dauð stund þessi tíu ár sem ég hef tekið þátt í að byggja upp hinn smáa en knáa háskóla á Hólum! Áður starfaði ég við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og fylgdi honum eftir inní Listaháskóla Íslands - en á þeim tímamótum var sama þróun í fullum gangi á Hólum og þangað leitaði hugurinn heldur. Kannski vegna þess að það er meiri ögrun að byggja upp háskóla í dreifbýli en borg? En ekki síst vegna þess að hér bauðst mér það tækifæri að beina kröftunum að því að byggja upp rannsóknir og kennslu á sviði sem er að verða sífellt mikilvægara í menningu samtímans - ferðamálum. Ekki nóg með að þetta sé ein helsta atvinnu- og útflutningsgrein landsins - ferðamennska er einn sterkasti menningarstraumur samtímans, lykilþáttur í lífsstíl okkar auk þess að markaðssetning áfangastaðarins Íslands er í sterku samspili við sjálfsmynd þjóðarinnar. Því síðarnefnda eru stjórnvöld að átta sig á, sem sést til dæmis í þeirri vinnu sem lögð hefur verið í að leita að kjörorðum til að kynna Ísland á alþjóðavettvangi. Þau kjörorð sem voru kynnt í gær Kraftur, frelsi, friður höfðuðu strax til mín og þegar ég var að ganga í vinnuna í morgun áttaði ég mig á hversvegna: Ég upplifi þau hér í mínu daglega lífi og starfi.
mbl.is Lítill háskóli í mikilli sókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

já, hljómar þetta ekki bara vel?

Kraftur, frelsi, friður - er það ekki bara. Hvernig snýr þetta svo á erlendum tungumálum? Freedom, power, peace? Kraft, fred og frihed?


mbl.is Stefnt að samræmingu kynningarstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband