Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

vont mál

Ég er ekki jafn stolt af afstöðu Samtaka ferðaþjónustunnar gagnvart því að fyrirtæki hafi leyfi til að meina aðgang hópum sem þau telja að geti skaðað ímynd sína og ég er af Bændasamtökunum og Hótel Sögu. SAF er að stinga höfðinu í sandinn gagnvart alvarlegu vandamáli sem margir áfangastaðir glíma við; kynlífsferðamennsku. Allir kannast við það orð sem fer af Thailandi sem kynlífsáfangastað, meðal annars því að barnaníðingar venji komur sínar þangað.

Því miður hefur markaðssetning sérstaklega á Reykjavík, verið mjög tvíræð svo ekki sé meira sagt og orkað tvímælis samanber hörð viðbrögð við auglýsingaherferðinni One night stand og dirty weekend hér um árið.  Slík ímynd verður ekki auðveldlega afmáð, til þess þarf sterk viðbrögð og við skulum vera alveg óhrædd við að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í. Borgarstjórn og þingmenn gerðu rétt í að lýsa andstöðu sinni, ferðaþjónustan sem atvinnugrein ber með sinni markaðssetningu mikla ábyrgð gagnvart ímynd Íslands og hún þarf skýr skilaboð frá samfélaginu um hvað er við hæfi.

Það hefur borið á því að fólk reyni að líta framhjá því hvers eðlis koma þessa ákveðna hóps var. Þröstur Haraldsson gerir ágæta grein fyrir því í forsíðugrein í Bændablaðinu hvernig smám saman var dregið í land og reynt að fela hvað snowgathering.com stendur fyrir. Upphaflega var það kynnt sem kaupstefna, síðan hvataferð og svo bara svona vetrarferð fólks sem alveg óvart starfar allt í klámiðnaðinum... 

Ef einhver er enn í vafa um hverskonar starfssemi þarna er um að ræða bendi ég á úttekt í Vefritinu http://www.vefritid.is:80/index.php/greinasafn/allt-sem-er-djupt-og-dimmt-i-heiminum/ Svo eru það þeir sem vilja nú meina að þessi andstaða við klám sé nú bara eins og hver önnur hýstería, þetta sé bara lítið klám og litlir klámkallar þessir Hjörleifssynir. Það er bara ekki málið, málið snýst um að fyrirtækið Hótel Saga á sér ákveðinn markhóp sem það höfðar til með ímynd sinni. Það hverjir eru gestir hótelsins er stór hluti af þessari ímynd; einn markhópur getur hreinlega útilokað annan. Hótel Saga hefur greinilega ekki á stefnuskrá sinni að verða þekkt sem sleazy hotel af þeirri afspurn sem snowgathering.com hefði í för með sér og ég furða mig á að SAF skuli ekki styðja þá stefnu.

Það er ótrúlegt að heyra fólk túlka ákvörðun hótelsins sem skerðingu á ferðafrelsi, um það er auðvitað ekki að ræða. Það getur hver sem er komið til Íslands nema að lögregla og tollyfirvöld standi viðkomandi að því að gera það á einhvern hátt með ólögmætum hætti. Fyrirtæki hafa hinsvegar fullan rétt til og eiga að setja sér stefnu og vinnureglur um aðgang að sinni þjónustu. No shoes no shirt no service er algeng aðvörun á veitingastöðum í Bandaríkjunum. Á börunum í Tallin má víða sjá eftirfarandi: We reserve the right to refuse stag parties admittance - við áskiljum okkur allan rétt til að meina steggjapartíum aðgang. Hótel Saga hefur líka sinn standard og ekkert nema gott um það að segja.


gott mál!

Þetta var flott hjá bændasamtökunum og mjög skiljanleg ákvörðun af hálfu Radisson hótelanna, sem hafa metnaðarfulla stefnu um menningarlega fjölbreytni og mannvirðingu sem sjá má á þeirra vefsetrum. Sjá frétt á vef landbúnaðarins: http://www.bondi.is/landbunadur/wgbi.nsf/key2/tbjn6ynh8c.html

Ég er stolt af þeim fyrir að taka afstöðu gegn klámvæðingu áfangastaðarins Reykjavík!


mbl.is Hætt við klámráðstefnu hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

markaðssetningin að skila sér?

Ég get nú ekki varist þeirri hugsun að markviss markaðssetning á Reykjavík sem djammborg og kynlífsáfangastað hafi eitthvað með það að gera að klámvefararnir vilji hittast hér. Varla storma þeir Vatikanið?

Annars finnst mér Hótel Saga nú heldur betur setja niður fyrir að vera vettvangur fyrir svona ráðstefnu. Ætli öðrum hótelgestum á þessum tíma finnist smart að vera þarna eða verður hótelið undirlagt af klámframleiðenda ráðstefnunni? Þetta var náttúrlega eitt helsta hótelið í bænum, Grillið fínn veitingastaður sem maður fór á af sérstöku tilefni - en þetta klámlið er nú ekki félagsskapur sem ég myndi vilja fyrirhitta. Svo ég fer eitthvað annað á Food and fun í ár og líklega eitthvað framvegis. Hvet bara alla sem eru sama sinnist til að njóta þess að vera í frjálsu og fjölbreyttu þjóðfélagi og beita sínu viðskiptavali heldur að hótelum og veitingastöðum sem eru vönd að sinni virðingu.

Það skiptir ekki bara máli hvar þú ert heldur líka með hverjum!


girnilega rauðir!

janfeb07 006Svona í framhaldi af pælingum mínum um innflutning og framleiðslu matvæla, gæði og verð. Muna svo að setja tómatana ekki í ísskápinn, þeir eru bestir við stofuhita - allt önnur ella eins og sagt er.

heilbrigð skynsemi - kominn tími á að nota hana!

Flott framtak www.heilbrigd-skynsemi.blog.is Það veitir ekki af að spá í hlutina útfrá því sjónarmiði að finna lausnir, en því miður festast stjórnmálamenn oft í því fari að hafa skoðanir en gleyma að þeirra hlutverk er að leysa málin. Afleiðingin er að þeir lemja hver á öðrum með sínum hreinu línum sem eiga að gilda alltaf allstaðar en virða ekki þá einföldu staðreynd að stjórnmál eru mannleg samskipti. Í stjórnmálum þarf að leysa ágreining rétt eins og þess þarf innan fjölskyldu, á leikskólanum og á vinnustöðum fullorðins fólks. Kreddur og klisjur eru ekkert til að byggja lausnir á, til þess þarf tillögur, umhugsun, samtal og málamiðlanir. Já ég sagði málamiðlanir, um það snýst lífið að finna leiðir til að mæta ólíkum hagsmunum og sætta ólík sjónarmið. Hvort sem hagsmunirnir varða hvað á að vera í kvöldmatinn eða hvaða efnahagsstefnu á að reka. Það getur verið flókið og erfitt, lífið er bara ekki einfalt og stjórnmál ekki heldur. Þeir sem halda öðru fram eru í besta falli að blekkja sjálfa sig, í versta falli að ljúga.

er innflutt endilega ódýrt og gott?

Þetta var flott hjá forystumönnum bænda að snúa sér nú að versluninni til að ræða málin um markaðssetningu og verðlagningu matvæla. Eins og vandræðagangurinn í ráðherrunum sýnir þá ráða s.k. ráðamenn greinilega engu, lækkun matarverðs sem þeir boða er að étast upp í höndunum á versluninni og þeir fá ekki rönd við reist.

Þetta er hinsvegar skref í rétta átt að framleiðendur og seljendur tali saman og þar eigum við neytendur ekki að sitja þegjandi hjá. Ég vil auðvitað eins og allir eiga kost á ódýrum matvælum en þau verða líka að vera góð. Ódýrt ruslfæði er heilsuspillandi og við verðum að hugsa um matvæli útfrá verðum og gæðum í senn. Undanfarin ár hefur komið upp mikið og gott andóf við gleypuganginum sem skyndibitinn stendur fyrir, s.k. slow food hreyfing en þar er mikil áhersla lögð á að matvæli séu sem ferskust og að byggja á matarhefðum og framleiðslu heimafyrir í staðinn fyrir tilbúinn og þrælrotvarinn mat. 

Ég tek undir með bændum í að þrýsta á verslanirnar í landinu að lækka álagningu á landbúnaðarvörur. Ég vil líka fá breytingu á lögum og reglugerðum þannig að ég geti keypt beint frá býli, beint frá framleiðanda og þannig sloppið við álagningu milliliða í flutningum, markaðssetningu og afgreiðslu á vörunum. Þá væri komin alvöru samkeppni um hver býður besta verð og gæði.


mbl.is Bændur hvetja Bónus til að lækka innlendar búvörur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

flott grein hjá þér Erna - uppúr glerþakinu!

Ég bið alla jafnréttissinna að lesa greinina hennar Ernu Indriðadóttur í Mogganum í dag - það er komið hingað og ekki lengra á að taka því með þögninni að það sé einhver kvenlægur misskilningur að kona geti leitt stjórnmálaflokk og/eða ríkisstjórn. Þetta tal sem er búið að vera í fjölmiðlum er bara dæmigert fyrir hvernig er reynt að gera lítið úr konum sem forystumönnum. Það standa öll spjót á Ingibjörgu Sólrúnu, að sjálfsögðu. Í fyrsta lagi ætla karlarnir nú ekki að hleypa henni uppá pall, í þeirra huga er staður kvenna við hlið karlanna sem ritarar, varaformenn og hjálparhellur en aldrei í forystu. Í öðru lagi vegna þess að henni tekst oftar en öðrum leiðtogum að segja eitthvað sem munað er eftir, koma með nýtt innslag. Man einhver eftir því hvað Steingrímur og Össur segja í verðlaunaræðunum sínum á þingi? Eiga þeir einhverja Borgarnesræðu eða nýtt hugtak í íslenskum stjórnmálum á borð við samræðustjórnmál? Ég bara held ekki.

og það var frábært!

Þorrablótið var frábært! Rauðu skórnir og súrmaturinn stóðu líka fyrir sínu. Það var gert smá grín að mér enda hafði ég náttúrlega unnið fyrir því og hefði fundist frekar fúlt ef ekkert hefði verið skotið á mig. Það er eiginlega einelti að vera ekki pínu strítt á blótinu. Galdurinn er náttúrlega að grínið er góðlátlegt og ef fólk hefur ekki gert neitt sem hægt er að hlæja að þá þarf bara að búa til eitthvað bull til að hafa það með. Kannski eru þorrablótin með sínum annálum um atburði ársins einskonar uppskeruhátíð mannlífsins í minni sveit, maður er allavega örugglega enn á lífi ef maður kemst í annálinn!

hlakka til kvöldsins!

Það er þorrablót Hólahrepps og Viðvíkursveitar í kvöld! Hér kemur hver fjölskylda eða vinahópur með sitt trog með þeim mat sem þykir þorralegur - hér sjást nú jafnvel kjúklingalappir og kótelettur í raspi. Ekki í okkar trogi, Súrmatarfélag Sauðárkróks kemur með mér! Svo verður lókalhúmorinn á fullu, dagskráin er hefðbundin og snýst aðallega um að gera grín að sem flestum og flestu sem hefur komið upp á  síðan á síðasta blóti. Og svo þarf að dansa af sér allan mörinn úr þorramatnum, það þarf að vera að alveg fram á morgun til að ná einhverjum árangri í því. Fer á rauðu skónum, það er nú kosningavetur eftir allt saman!

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband