Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ferðalög

aðventuferð innanlands

er alveg málið. Ég stend við fyrri yfirlýsingar um að bæjarferðir eru frumlegri en borgarferðir! Sjá til dæmis: http://www.skagafjordur.is/upload/files/JOLADAGSKRA2007_screen.pdf en ef þig langar eitthvað annað þá skaltu tékka á heimasíðum sveitarfélaganna (þær eru allar á www.samband.is) og sjá hvað er í gangi.

Þú þarft ekki að splæsa í stóra ferðatösku til að fara í aðventuferð...

 


Jorvik

Ég var á Englandi í síðustu viku og ákvað sem prófessor í menningartengdri ferðaþjónustu að bregða mér til York og skoða Jorvik víkingasýninguna sem er byggð á fornleifauppgreftri sem hófst þegar verið var að reisa verslunarmiðstöð í miðbænum. Þetta er nú frekar lítil sýning en að ýmsu leyti ágæt. Það er smá húmor í þessu á köflum, en kannski svolítið byggður á staðalmyndum: Það er búið að gera brúður byggðar á tilgátum um útlit þeirra einstaklinga sem hafa verið grafnir upp. Þessar brúður eru svo í eftirgerðinni af víkingabænum, uppteknar við ýmis störf - nema tveir smiðir sem sitja og gæða sér á nestinu sínu að því er virðist. Handan við stíginn stendur kona og lætur móðan mása og virðist vera að segja smiðunum alveg krassandi kjaftasögu eftir málrómnum að dæma. Annar smiðurinn hlustar af áhuga og segir annað slagið: Nú? Jaá, nújá?vikings1

farfuglaheimili í heimsklassa

3560 Til hamingju með að vera á lista yfir 10 bestu farfuglaheimili í heimi í ykkar flokki, farfuglaheimilið á Ósum í Húnaþingi vestra! Sjá nánar á vef Ferðamálastofu.


Sveitamatur með sveiflu

Ég var ein af þessum á fimmta þúsund sem mættu á Sveitasælu 2007 á Sauðárkrók og þar var sveitamatur með sveiflu. Hvannasúpan var algerlega ljúf og örugglega líka holl, ég missti af fjóluísnum en ég hef smakkað hann í réttu umhverfi innan um fjólurnar og votta hér með að það er alger upplifun. Játning dagsins er að ég smakkaði pönnsurnar oftar en einu sinni, bara til að hafa samanburð - ein mæling er aldrei nóg... Það er meira um þetta á http://www.holar.is/fr451.htm Svo sjáumst við á Sveitasælu 2008!


allir á móti öllum í umferðinni?

Ég var að lesa bloggfærslur sem lýsa vel leiðinlegum móral hérlendis varðandi umferð og umgengni við landið. Það er tilhneiging okkar til að fjandskapast og óskapast í garð þeirra, sem hafa annan ferðamáta en við sjálf höfum valið okkur. Í viðkomandi tilfelli voru crossarar og hestamenn að rífast, enda mörg dæmi um árekstra þessara ólíku ferðamáta. Í báðum tilfellum eru iðkendur víða um land að byggja upp aðstöðu, þ.e. reiðstíga annars vegar og mótorcross brautir hinsvegar. Í báðum tilfellum liggja þessir hópar (og reyndar fleiri s.s. jeppafólk) undir ámæli annarra ferðalanga t.d. göngufólks, um að umferð þeirra utan vega spilli landinu. Það er mjög mikilvægt að ræða um hvað má betur fara í umferð og umgengni um landið á hvaða fararskjóta sem fólk velur sér. En að stilla málinu alltaf upp þannig að einn ferðamáti sé betri eða verri en annar er alveg gagnslaust. Það eru svartir sauðir á öllum farartækjum og fararskjótum. Umræðan birtir oft sorglega fordóma fólks í garð þeirra sem ferðast um á einhverju öðru en það sjálft þekkir og metur best.

Umferðarmenning á Íslandi er því miður að mörgu leyti ómenning; fólk ekur of hratt miðað við aðstæður bæði á þjóðvegunum og í íbúðahverfum, fleygir rusli á götur og akvegi (sjáið allar gosflöskurnar í vegkantinum), reiðvegi og göngustíga (sbr. umræðu í sumar um uppsafnaðan klósettpappír við gönguleiðir á hálendinu), fólk ekur/ríður/gengur án tillits til þess hvort það valdi spjöllum (sjáið alla óformlegu gönguslóðana á ræktuðu landi í þéttbýlinu - jafnvel rétt við gangstíg!) Það sem er kannski verst er fólk fer illa með eigin sálarástand og stofnar lífi og limum í hættu með því að æsa sig upp í illindum við aðra vegfarendur. Það að aka vegina í bílnum sínum bölvandi hinum bílstjórunum, hjólreiðafólkinu eða hestamanninum sem skv. umferðarlögum er líka í sínum fulla rétti á veginum - er ekki bara sorglegt heldur hættulegt.

Það þarf að haga sér í samræmi við aðstæður og virða aðra vegfarendur hvernig sem þeir kjósa að ferðast. Það gildir það sama um ökumenn fólksbíla, hestamenn, jeppafólk, sleðafólk og mótorcrossara: Enginn þessara hópa á það skilið að fá á sig einhvern allsherjar stimpil útaf slæmri framkomu einhverra með sama áhugamál. Á myndinni sjáið þið dæmigerðan ferðahóp á íslenskum hestum, þau ferðast með svipuðum hætti og hefur verið gert hér frá landnámi. Þau velja að vera á fáförnum vegi því enginn hefur beinlínis áhuga á að ríða í bílaumferð, það er riðið fyrir og á eftir og þess gætt að hrossin lesti sig (séu í einfaldri röð) þannig að  hægt sé að mæta og/eða hleypa annarri umferð framhjá. Er einhver ástæða til að æsa sig yfir þessu?

janfeb07 116


Gengið á Elliða

HeljardalursedafEllida

Þarna sést niður í Kolbeinsdal og inná Heljardal, Helgi Thorarensen tók myndina. Við létum loksins verða af því hjónin að ganga á Elliða, sem er hæstur tæpir 900 m yfir sjávarmál og bara hérna í bakgarðinum okkar á Hólum eða þannig. Þetta er mjög skemmtileg ganga, það er hægt að aka slóða inn Víðinesdal og ganga slóðann áfram uppá Almenningsháls þarsem liggur svo brött leið niður í Kolbeinsdal - eða halda til vinstri eða í vestur sem leið liggur út eggjarnar á Elliða. Þær eru víða dálítið mjóar og ansi hátt að líta niður í Kolbeinsdalinn, hrossin í afréttinni eins og pínulítil piparkorn til að sjá. Nema ég sé farin að tapa sjón! Þegar upp er komið sér maður inná Tungnahrygg, á Heljardalsheiði og svo frábær útsýn út Hjaltadal og Kolbeinsdal á Skagafjörð. Við fórum um hádegi og vorum komin heim um níuleytið, þá var allt baðað kvöldsól og Hólabyrðan orðin rjóð og undirleit eins og hún á vanda til. Það lítur út fyrir gott berjasumar, mikið á lynginu en berin eru enn smá. Það kom mér dálítið á óvart hvað það er fjölbreytt berg í Elliðanum, sandsteinn alveg í hæstu hæðum meira að segja. Einmitt þegar ég var orðin dálítið svona góð með mig yfir fjallgöngunni komum við þar að sem fimm feitir hrútar lágu og kældu sig á fjallstoppnum, flúnir úr hitanum þess fullvissir að það sé kalt á toppnum. Þeir eru náttúrlega fótvissari en ég, en að stirðleika og holdafari sýndist mér við að öðru leyti í svipuðu formi...


Hestaferð í Dölunum

Ég verð að sýna ykkur hvað þetta var frábært: Þarna er verið að leggja af stað frá Ljárskógarétt til að ríða leirurnar yfir í Hvammssveit  helgioggunnadalir07

Skúlína vinkona tók myndirnar og náði nokkrum flottum af rekstrinum á leið út á leirurnar janfeb07 098


Vöndum okkur um Verslunarmannahelgina

þetta er ein aðal ferða- og skemmtanahelgi ársins og oft myndast hálfgert fár í kringum spurninguna um hvert flestir ætli og hvar verði mesta stuðið. Það er spenna í loftinu sem þýðir að við verðum að vanda okkur svolítið meira við að vera til þessa daga þegar svo margir eru á ferð og flugi í leit að fjörinu. Ég vona að við náum að njóta í stað þess að þjóta um landið okkar, fjörið er ekki þarna úti einhversstaðar heldur í okkur sjálfum hvar sem við erum stödd! Svo óska ég öllum landsmönnum og gestum góðrar verslunarmannahelgar 2007.


Tröllaskaginn kortlagður fyrir gönguhrólfa

gleðifréttir fyrir þá sem elska góðar gönguferðir um fjöll og firnindi: http://www.holar.is/fr435.htmgongukort

Hvað er bakvið fjöllin háu í Langadal?

Það grunar fáa sem renna þjóðveg eitt um Langadalinn í Austur-Húnavatnssýslu, hvað það er fjölbreytt og fallegt landslag bakvið fjöllin háu austan megin dalsins. Það er þó orðið auðveldara að gera sér það í hugarlund og jafnvel njóta þess aðeins með því að leyfa sér að stoppa við eitt af skiltunum sem hafa verið sett upp á stöku stað við veginn. Á þeim eru kort af svæðinu milli Langadals og Skagafjarðar, dölum sem nú eru í eyði: Laxárdal, Víðidal, Hryggjadal, Ytri og Fremri-Rangala og hvað þeir nú allir heita. Laxárdalurinn endar á móts við Húnaver og útí Refasveit utan við Blönduós. Landslagið er æði fjölbreytt einkum vestan til á svæðinu þar sem er gömul megineldstöð með tilheyrandi litaspili í berginu. Vel geymt leyndarmál í alfaraleið - mæli með því að útvega sér göngukort og eyða að minnsta kosti degi í að skoða svæðið!


Næsta síða »

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband