Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

hundalíf fjölmiðlanna

Birgir Guðmundsson varpaði fram þeirri áhugaverðu spurningu á ráðstefnu hér við Háskólann á Hólum um helgina hvort varðhundar almannahagsmuna (þ.e. fjölmiðlar) gelti síður í litlum samfélögum. Þar var hann að velta því fyrir sér hvort héraðsfréttamiðlar væru of nánir umhverfi sínu til að vera varðhundar. Það hvarflaði að mér að etv. væri þetta of þröngur skilningur á hundalífi fjölmiðilsins; lókalmiðillinn er kannski meira heimilishundur en varðhundur og Birgir benti þá á að hann geltir líklega síður að húsbændum sínum. En það gildir ef til vill ekkert síður um stærri fjölmiðla - eða hvað?

Það sem ég var að pæla í sambandi við heimilishundinn var nú ekki bara geltið - hundavinir vita auðvitað að þeir tjá sig á ýmsa aðra vegu. Þeir setja upp hundshaus, urra, bíta, dingla skottinu, flaðra, sleikja - ég get svarið að ég hef séð hund brosa. Þeir hafa þar að auki hin ýmsu hlutverk; sækja, smala, leita, verja, berjast, leiða og fylgja. Það er nú kannski of í lagt að ætla heimilishundinum það hlutverk fjölmiðla sem Birgir nefndi í sínu erindi samfélagssmíði. En væntanlega býr sá draumur að baki því að halda heimilishund að hann verði til gagns og gleði; ánægður, feldstrokinn, tryggur vinur sem dregur fram það besta í fjölskyldunni og heimilislífinu. Það má kannski líkja því einskonar samfélagssmíði að halda hund.

Auðvitað er sú smíð kannski ekki alltaf völundarsmíð, það getur verið að ábyrgðin á hundahaldinu lendi á fárra höndum og af hljótist missætti á heimili en það er náttúrlega ekki hundinum að kenna. Svo er því oft haldið fram að hundur líkist húsbónda sínum. Það er því áleitin spurning afhverju fjölmiðlahundinum er frekar lýst sem vondum hvutta sem hundelti fólk og við er því búist að varðhundur almannahagsmuna gelti, urri og bíti fremur en að hann þefi, grafi og leiti svo dæmi sé nefnt. Að ekki sé nú minnst á þá tilhneigingu fjölmiðlahvuttans að elta skottið á sjálfum sér. Það er sannarlega að fleiru að huga en varðstöðunni í hundahaldi fjölmiðlunar.


ótrúlega gaman að kenna

segja verðandi hestafræðingar og leiðbeinendur á Hólum - alveg er ég sammála þeim! Það er ótrúlega gaman að kenna, það verður allt miklu skemmtilegra ef maður þarf að deila því með öðrum hvort sem það er með því að kenna, segja frá, sýna eða bara vinna saman og læra af því hvernig aðrir bera sig að.

daprar stundir

í miðborg Reykjavíkur eru greinilega mun fleiri en þær, þegar húsin á horni Lækjargötu og Austurstrætis brunnu.  Vilhjálmur þáverandi borgarstjóri kallaði það dapra stund og hafði þetta að segja um viðbrögð og uppbyggingu: „Ég legg áherslu á það að það verði gengið hratt til leiks og þetta verði ekki látið drolla í einhver misseri eða ár. Þetta er hjarta bæjarins og þarna verðum við að ganga vel um.“

Ég er sammála þessu - en hvað dvelur orminn langa? Hversvegna er ástandið eins og Torfusamtökin lýsa í sinni ályktun? Ætlar borgarstjórn Reykjavíkur að sýna menningu okkar og umhverfi virðingu eða ætlar hún að halda áfram að virða meira hagsmuni stundargróðapunganna?


eigendur bera ábyrgð

á eigum sínum og að þær séu öðrum ekki til ama og jafnvel tjóns. Það er til skammar að lóðabröskurum skuli líðast að láta gamla bæinn, hjarta höfuðborgar þessa menningarlands grotna niður. Það er ábyrgð að eiga eign í miðbænum og það er ábyrgð að eiga gamalt hús sem er orðið fágætt. Borgarstjórn Reykjavíkur verður að standa í lappirnar sem forystuafl höfuðborgarinnar og verja þann menningararf sem þjóðin á að varðveita fyrir heimsbyggðina með því að kalla eigendur húsa og lóða í miðbænum til ábyrgðar. Skammtímahagsmunir hafa alltof lengi fengið að ráða ferðinni með þeim afleiðingum að miðbærinn er hreinlega ógeðslegur á köflum og það er alger óþarfi eins og sést á þeim fjölmörgu húsum sem hirðusamt og vandað fólk hefur sinnt og haldið við þannig að sómi er að. Það á heiður skilið en ekki aumingjaleg yfirvöld sem leyfa bröskurunum að vaða yfir það og þjóðina alla á skítugum skónum. Hvar er Villi nú í brunaliðsgallanum - já ég segi og skrifa brunalið - í þessu máli er hann allavega ekki í slökkviliðinu!

allt í blóma

heima hjá mér þessa stundina, stofublómin tóku óvænt uppá að blómstra, hafa líklega fundið á sér að það væri von á gestum og viljað gera sitt til að flikka uppá heimilið.mars2008 005

Geir mun tjá sig

- hvernig ætli sú tjáning verði? Í tali eða tónum, verður hún leikræn? Mun hann tjá þjóðinni ást sína eða bönkunum hug sinn eða verður þessi tjáning kannski ekki á tilfinningalegu nótunum?

Orðalag fréttarinnar hefur líklega vakið hjá mér falskar vonir um að það gerist eitthvað annað og meira en að Geir muni tala við fjölmiðlana.


mbl.is Blaðamannafundur boðaður að loknum ríkisstjórnarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yacoubian byggingin

er bók, sem kvað hafa notið mikilla vinsælda víða um heim en ég er ekkert ofboðslega hrifin af henni. Ef til vill hafði ég of miklar væntingar til verksins. Það, sem situr eftir hjá mér eftir lesturinn er þó slungið samspil hnignunar byggingarinnar, borgarinnar, þjóðfélagsins og einstaklingsins. Sagan er að töluverðu leyti sögð frá sjónarhóli eldri manns, sem er og var það sem gjarnan er nefnt kvennamaður. Nú hef ég ekki aðgang að frumtextanum en þegar ég var komin aftur í miðja bók fór ég að velta fyrir mér ákveðnu tilbreytingarleysi í málfarinu. Þegar lýsingin "þrýstin brjóst" kom fyrir í þriðja sinn fór ég að efast um stílsnilldina - getur verið að þessi vinsæli höfundur eigi engar aðrar lýsingar á aðdáunarverðum brjóstum? Og það útfrá sjónarhóli sögumanns, sem er ekki einungis mikill áhugamaður um brjóst almennt heldur býr að beinni reynslu og þekkingu af fjöldamörgum brjóstum.

Álitsgjafarnir Kolbrún og Páll í Kiljunni voru þokkalega ánægð með verkið - að því gefnu að þetta sé sápa eða eldhúsróman eins og sagt var hér áður fyrr. Það kom mér reyndar á óvart að  hvorugt nefndi að íslenska útgáfan er ekki sérlega vönduð. Í henni eru t.d. innsláttarvillur - sem ætti ekki að þekkjast hjá vandaðri útgáfu.


grönn=flott???

ég var að hlusta á morgunútvarpið í morgun og varð svolítið leið. Það var ungur maður að taka viðtöl við nemendur í Hagaskóla í tilefni af forvarnadegi og mér fannst leitt hvað spurningar hans til nemenda voru leiðandi og endurspegluðu jafnvel ákveðna fordóma. Hann spurði til dæmis eina stelpuna út í það hvort væri ekki alltaf verið að pressa á þær að vera grannar og flottar - þ.e. hann spyrti þetta tvennt saman í spurningunni. Hann spurði í framhaldinu hvort viðkomandi léti undan pressu eða gerirðu bara það sem þú vilt - dö - hver vill segja í útvarpið að hún láti undan pressu? En þessir krakkar eru hugsandi fólk og þó hún hafi sagt að hún gerði náttúrlega það sem hún sjálf vildi bætti hún við í lágum róm "held ég". Og þó allir fengju leiðandi spurningu um hvor unglingar taki nokkuð mark á tali um forvarnir voru svörin mjög mismunandi og flest á þá leið að það færi nú eftir því hvernig það tal væri, en að þau persónulega hugsuðu um þessi mál í víðu samhengi. Og mín reynsla er sú að unglingar vilja ræða um lífstíl, um hvernig er rétt og gott að lifa lífinu - ekkert síður en fullorðið fólk og að þau vita vel að svoleiðis umræður eru forvarnir. Afhverju eru fullorðnir viðmælendur annars ekki spurðir hvort fullorðið fólk taki nokkuð mark á svona forvarnatali?

hreyfa sig

er náttúrlega göfugt markmið - ekki síst að hreyfa sig útivið sérlega fyrir konur á mínum aldri. Það eru hæg heimatökin hér, þarf ekki annað en að fara á bakvið hús og ég er komin útí skóg og uppí fjall á engri stund. En það er svo skrýtið að tíminn sem ég þarf ekki að eyða í umferðinni til og frá vinnu hann virðist ekki nýtast sem tómstundir - ég er bara þess lengur í vinnunni! Þetta er náttúrlega ekki hægt, enda er kominn verulegur félagslegur þrýstingur á að bæta sig; vinnufélagarnir með sundklúbb og taka þátt í Lífshlaupinu og strákurinn minn með æfingaprógramm í gangi fyrir mig. Svo eru mættir tveir fulltrúar þrýstihópsins hrossin mín á svæðið, fór á bak Júní í fyrsta sinn síðan í fyrra í gærkvöld. Það lofar góðu í dag - strengirnir koma á morgun

já var það ekki?

Úr því að álit er komið frá útlöndum er þá ekki kominn tími á að taka mark á þeirri gagnrýni að skattleysismörkin hér eru til skammar!


mbl.is Skattabreytingar hafa komið tekjuhærri hópum til góða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband