Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

torf í arf - tær snilld

ég var að koma af málþinginu Torf í arf á Löngumýri. Það voru Byggðasafn Skagfirðinga, Ferðamáladeild Háskólans á Hólum, Íslenski torfbærinn og Reykjavíkurakademían sem stóðu að þessu frábæra framtaki að leiða saman fólk úr minjageiranum; handverksfólk, fræðimenn og listafólk sem vill varðveita arfleifð okkar í torfbyggingum.

Að vissu leyti erum við með skyldari hefð við varðveislu hugsjónir austurlanda og frumbyggja norður ameríku en vesturlanda þegar torfið er annars vegar. Það er lífrænt byggingarefni sem brotnar hratt niður og hverfur aftur til jarðar eins og tótemin á vesturströnd norður ameríku. Varðveislan snýst því um að varðveita þekkingu fólksins og samfélagið um hefðina. Að varðveita verkið, halda áfram þessu eilífa bjástri við efni og aðstæður sem torfbygging er og síðast en ekki síst að skynja fegurðina í hleðslunni.


stór dagur á skólasetrinu

Það var stór dagur hér á Hólum í gær, fyrst er nú að segja frá að Grunnskólinn að Hólum hélt uppá 30 ára afmæli sitt með glæsilegri ráðstefnu í gær undir kjörorðinu Hugvit og sköpun; sjá nánar http://www.skagafjordur.com/index.php?pid=511&cid=8025 Þetta var flott framtak hjá krökkunum og kennurunum þeirra, sem eru markvisst að byggja upp frumkvæði og sjálfstraust til að koma góðum hlutum í verk.

Ferðamáladeild Háskólans á Hólum var með vettvangslotu í menningartengdri ferðaþjónustu fyrir staðarverði og í framhaldi af fyrirlestrunum var farið í skoðunarferð á nokkra valda minjastaði í Skagafirði. Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup tók svo á móti hópnum í Hóladómkirkju og ræddi um kirkjuna og ferðaþjónustuna en að lokum voru fræðimenn Guðbrandsstofnunar þau Marta og Örn svo elskuleg að gefa hópnum innsýn í rannsóknir sínar á íslenskum tónlistararfi með því að leika á forn hljóðfæri og syngja lög úr fornum handritum. Þetta var í Auðunarstofu sem er nú eins og hljóðfæri sjálf og yndislegt að vera þar á tónleikum.

Um kvöldið kepptu nemendur á fyrsta ári á hrossabraut í grímufimi, í Þráarhöllinni. Þetta er alltaf skemmtileg keppni með húmor og glæsileika í hæfilegum mæli. Flott tónlist og fínar æfingar - en síðast en ekki síst búningar hrossa og knapa. Það voru húnvetnskar stúlkur sem unnu, kannski var einhver húnvetnskur andi á svæðinu því Félag kúabænda í Austur-Húnavatnssýslu var líka mætt í kynnisferð. Auk þess var rússneski sendiherrann í heimsókn. Þannig að það var nóg að gera hjá Rósu og co í Gestum og gangandi við að fæða og hýsa mannskapinn!

 


frumsýningin afstaðin

og gekk  vel - ég þorði nú ekki að nefna neitt eftir generalprufuna í fyrradag því ég sá persónulega um klúðrið þar. Reyndi m.a. að stytta leikritið um 6 blaðsíður!!! En á það ekki bara að vita á gott?

Á frumsýningunni gærkvöldi gekk allt að óskum, kraftur og gleði í hópnum og góður salur. Önnur sýning í kvöld og svo smápása fram á þriðjudag. Eygló systir og Jóhanna okkar mættu fyrir hönd fjölskyldunnar, mér heyrðist þær bara skemmta sér vel. Ég frétti í gær að það væri heitar umræður hér um allar sveitir um það hversu fáklæddur hann Helgi minn raunverulega er í sýningunni - en ég ætla sko ekki að ljóstra upp um það hér! Sjón er sögu ríkari gott fólk...Mynd 7


ykkar einlæg á fjölunum

Þarna er ég alveg í steik í Ef væri ég gullfiskur hjá Leikfélagi Hofsóss. Frumsýning annað kvöld, 23.3. kl. 21:00 í Höfðaborg, miðapantanir í síma 893 0220 frá 13-18... Sjá t.d. frá æfingum á http://www.holar.is/fr390.htm og á http://www.skagafjordur.com/index.php?pid=511&cid=7976 Vildi bara svona láta ykkur öll vita af þessu!

Ef væri ég gullfiskur


hús með sál - eða allavega hljóð

skolahus3 Það er bara eitt sem getur orðið óþægilegt við vinnuaðstöðuna mína; þessar fáu stundir þegar húsið tekur undir með vindinum og ýlir mjóum rómi um napran vind á glugga. Það er reyndar meiri rödd í þessu húsi og það geymir sögur um lífið hér í nærfellt heila öld. Skrifstofan mín var áður heimavistarherbergi og kallað Mosfell, þar voru mest 4 strákar hefur mér skilist af mönnum sem hafa komið að vitja fornra slóða. Annars eru alltof miklar eyður í sögu staðarins þegar kemur að almúganum; skólapiltum, vinnufólki, ráðsmönnum og ráðskonum - það voru nú ekki bara biskupar hér á Hólum.

Viti konur og menn - haldiði ekki að húsið hafi steinhætt að væla rétt á meðan ég var að blogga þetta. Það er náttúrlega svo vant að virðingu sinni að það lætur þennan tón ekki um sig spyrjast! Svo gerist þetta nú svo sjaldan, hér er skjól í norðanáttinni og sunnanvindurinn sem getur orðið hvassastur á vorin og haustin er bara hnjúkaþeyr úr Tröllaskaganum.


frumsýning á föstudaginn

Jæja, nú líður að því: Leikfélag Hofsóss ætlar uppá dekk með Ef væri ég gullfiskur. Allt að smella, spennan magnast, fann karakterinn í skónum. Merkilegt hvað hann getur legið í proppsinu, áttaði mig á þessu þegar ég lék konu með ógurlega ljótt og púkalegt veski og uppgötvaði að þetta veski var alveg hún. Þá sá ég náttúrlega hvað þetta var í raun og veru gerðarlegt veski. Semsagt; bara svo þið vitið það þá er frumsýning í Höfðaborg 23.3. - allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

veður og færð hamlar listrænni tjáningu

Nú er búið að fella niður æfingu í kvöld vegna veðurs, einn leikarinn veðurtepptur í Reykjavík - greinilega fúlt veður þar í kring, slys og óhöpp. Ég næ allavega að fara yfir nokkrar ritgerðir í menningartengdri ferðaþjónustu í viðbót. Annars stefnir bara rólegt kvöld heima með köllunum, fara aðeins yfir rulluna eða kannski bara koðna niður fyrir framan sjónvarpið? Líklega verður ekki bjartara á perunni en það, bara svona lítil týra... janfeb07 004


svona góður hríðardagur

Ég er nú lúmskt ánægð með þessa hríð, var farin að sakna þess að hafa ekki kafsnjó. Átti ljúfa endurfundi við Nokiastígvélin áðan til að geta öslað snjóinn milli húsa, ef þetta tekur ekki strax upp verður fínasta gönguskíðafæri í Hólaskógi næstu daga. Auðvitað er þetta bölvað vesen, lokað í Tindastól vegna veðurs og varð að fresta Vinnuvöku skagfirskra kvenna og svo getur nú verið að fari mesti glansinn af hríðinni þegar við Helgi förum að huga að því að komast á leikæfingu útí Hofsós á eftir. Ég skil samt alveg konugreyið í Gullna hliðinu sem var orðin hundleið á öllu blíðviðrinu í himnaríki...


þetta líst mér vel á

Þetta eru góðar fréttir, þetta ætti auðvitað að vera ríkur þáttur í því sem við köllum lífsleikni í samtímanum. Við verðum að læra að lesa í myndmál ekkert síður en að læra að lesa ritað mál - hlakka til að heyra meira um þetta.
mbl.is Börn læri að lesa auglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

það er kúl að vera í kvenfélagi

Ég er í Kvenfélagi Hólahrepps og hef gaman af því. Það spurði mig kona að því þegar kvenfélagið mitt barst í tal hvað væru margar með bílpróf, ég sagði að við værum nú allar komnar með bílpróf. Það kom ljós að hún var að meina hvað væru margar hættar að keyra sökum aldurs! Staðan í hennar sveit er víst þannig að það horfir til vandræða með fundahöld vegna þess hve fáar keyra. Kvenfélög eru sjálfsagt eins misjöfn og þau eru mörg, en hér fjölgar bara í félaginu og ég er ekki lengur í yngri deildinni.

Það er ákveðinn feminismi að vera í kvenfélagi. Feminismarnir eru nefnilega svo margir og mismunandi. Félagið vill og getur lagt samfélaginu mikið lið og eiginlega fátt í þessum heimi sem er okkur óviðkomandi. Formlegheitin eru í lágmarki, markmiðið aðallega að hafa gaman af því að vera til. Það er dálítið táknrænt að við eigum vinakvenfélag því vinátta er það sem vex af því að vera saman í félagi. Það er kvenfélagið Tilraun í Svarfaðardal, en það er aldalöng hefð fyrir miklum samskiptum yfir Tröllaskagann.

Því lengur sem ég er í kvenfélaginu því afslappaðri verð ég fyrir karlaklúbbunum, sækjast sér um líkir eða eins og Gréta Sjöfn vinkona segir oft: Gott er að vera í góðum hópi og gerast honum líkur.

 


Næsta síða »

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband