Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

mér var nær!

Ég fékk mjög undarlegt símtal áðan. Mér var boðið að troða upp, ásamt eiginmanni mínum sem jólasveinar á jólaskemmtun á Suðurlandi. Helgi hefur að vísu staðið sig vel í þessu hlutverki innan héraðs í Skagafirði, en ég vissi ekki að hróður hans hefði borist víðar. Meðan ég var að melta þessa óvæntu upphefð skaut viðmælandinn því að mér að símtalið væri verkefni í námskeiði í Viðburðastjórnun, sem ég kenni við Háskólann á Hólum... Blush Ég er semsagt ekkert fræg, bara gleymin - var í svipinn búin að steingleyma að ég hafði sett þeim það fyrir sem verkefni ráða mig sem skemmtikraft með símtali. Það er bót í máli að nemendur geta skemmt sér konunglega yfir þessu - vonandi skemmti ég mér eins yfir greinargerðunum þeirra um verkefnið!


lágmark einn í hóp og tveir í lest

segir sig kannski sjálft en í þessari frétt um félagslega einangrun innflytjenda kemur fram atriði sem er ekki bara þeim heldur getur víða verið til vandræða. Krafan um lágmarksfjölda þátttakenda í ýmsum námskeiðum leiðir mjög oft til að áfangar í framhaldsskóla og nauðsynleg endurmenntunarnámskeið eru ekki í boði fyrir fámenna hópa, hvort sem það er vegna fámennis á staðnum eða vegna þess að greinarnar eru fámennar sbr. iðngreinar sem er alltof lítil eftirspurn eftir að læra. Í mörgum tilfellum má leysa þetta með fjarnámi - en í sumum tilfellum á sú aðferð ekki við. Það er nauðsynlegt að setja einhverjar viðmiðanir um að það verði að bregðast við ef einhver þarf á námskeiði að halda að ekki þurfa að bíða endalaust eftir að nógu margir aðrir fáist til að taka það.

Annars er pínu skondið í þessari frétt að því er slegið upp í fyrirsögn að innflytjendur séu félagslega einangraðri úti á landi - en hvar? Könnunin náði bara til deilda úti á landi, hver er samanburðurinn þá? Það fylgir því ákveðin einangrun að flytja úr einu samfélagi í annað, jafnvel innanlands.


mbl.is Innflytjendur einangraðri úti á landi samkvæmt nýrri könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

í útlöndum

Elísabet vinkona er á Írlandi ein að skrifa og skrifar um lonelyness á blogginu sínu. Samt er allt fullt af fólki, ókunnugu fólki. Ég sendi henni ljóð, sem ég man ekkert hvenær ég samdi en það er um að vera ein í útlöndum

Ein

Það er svo gott

að ganga  ein

um óþekkt stræti

 

að hlusta ein

á útlent regn

 

að vera ein

í ókunnum stað

 

þó gæti verið gott

 

á götunni fram eftir veg

að heyra fleiri fóta tak

 


haustið góða, rautt og gult -

ég er komin til byggða, komst í réttirnar, dró nokkrar hyrndar ær - ber þess enn merki en hélt röddinni - sem eins gott. Kennslan í Háskólanum á Hólum er nefnilega komin á fullt og ég kenni aðferðafræði í stífri lotu fyrsta mánuðinn. Nýnemavikan, sem áður hét fjarnemavikan var mjög vel heppnuð í ár (http://www.holar.is/fr456.htm) og eins og svo oft áður er ég með alveg einstaklega efnilegan nemendahóp. Mér finnst reyndar að mér hafi fundist þetta á hverju ári meira og minna allan minn kennsluferil. Það hlýtur bara að benda til þess að heimur fari batnandi!

göngur og réttir

ég segi nú bara eins og skáldið forðum: Eins mig fýsir alltaf þó, aftur að fara í göngur... Það er á morgun sem bændur og búalið í Viðvíkursveit og Hólahrepp hinum forna smala. Ég er ekki bóndi og tæplega búalið, en fæ samt að smala. Það er ótrúlega skemmtilegt, jafnvel í fyrra þegar við riðum frameftir með húðaslagveðursrigningu í bakið og hún breyttist í slyddu þegar ofar dró... Mér varð hugsað til forfeðra okkar og formæðra. Úr því þau höfðu þetta oftast af - þá var mér engin vorkunn á stríðaldri meri, stríðalin sjálf og í skjólfötum sem þekktust ekki þá. Svo hitnar manni náttúrlega af smalaæðinu! Við Grána förum fram á Kolbeinsdal á eftir og  vonandi á Heljardal á morgun. Séð af Elliða yfir Kolbeinsdal í Heljardal á sumardegi.

HeljardalursedafEllida


ég er í fjallaþorpi

litlu, fallegu fjallaþorpi sem er að taka á sig haustblæ. Ég ætla að vera hérna áfram. Í garðinum bakvið næsta hús frýsa tveir brúnir hestar, síðustu ferðamennirnir eru að taka myndir af húsinu á móti - sem er dæmi um forna byggingalist, dómkirkjuklukkurnar hringja til messu og kvöldbæna, ég kemst ekki yfir að nýta öll berin á runnunum eða fara til berja í fjallinu. Það vantar þó það, sem oft sést á póstkortum af svona fallegum fjallaþorpum; gamla fólkið sitjandi á bekk. Það er að vísu bekkur í Biskupagarðinum, en elsti íbúinn er bara rúmlega sextugur og má ekkert vera að því að sitja á bekknum og horfa á sér yngra fólk að leik og störfum. Þetta er nefnilega ekki þorp þar sem sama fjölskyldan býr mann fram af manni, þetta er háskólaþorp þar sem fólk hefur komið í 9 aldir til að læra og vinna en halda svo eitthvað annað. Ungt fólk, vinnukonur og vinnumenn, ráðsmenn og ráðskonur, skólapiltar og nú í seinni tíð háskólanemar af báðum kynjum komu hingað. Sagan segir að það séu ófáar fjölskyldurnar, sem var stofnað til hérna gegnum tíðina. Ég hef heyrt því haldið fram að öll þessi þjóð geti rakið ættir sínar til eins af biskupunum sem hér voru í kaþólskum sið, hvort sem það er nú rétt. Það er ekki nema von að haft sé á orði að fara heim að Hólum.


hljómar vel

já ætli þetta sé ekki góð lausn, hvetur ungt fólk til að kynnast þessum starfsvettvangi og gæti kannski leitt til að fleiri leggi störf á þessu sviði fyrir sig í framtíðinni. En hún er bara til bráðabirgða, langtímavandinn liggur í lágu verðmati á uppeldis og umönnunarstörfum...
mbl.is Kanna á með námsstyrki til námsmanna sem vinna á frístundaheimilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir dagar í Dölunum!

Ég er nýkomin úr hestaferð um Dalina - takk Dalamenn fyrir frábærar móttökur og að sýna okkur allar þessar fínu reiðleiðir; leirur, vellir, bakkar, heiðar og auðvitað alltaf sól! Það var yndislegt að á í Ljárskógaseli og rifja upp kvæði Jóhannesar úr Kötlum, jafnvel þó minnið brysti óþarflega... Að ríða niður með Fáskrúð sem er reyndar hin skrautlegasta og ekki er þá Skrauma síðri í litadýrðinni. Leirurnar í botni Hvammsfjarðar eru frábærar enda fór þar hver klár á þeim kostum sem hann (eða knapinn) kunni.

finna tjaldsvæði

þá má leita á www.ferdalag.is (ath. að vefurinn er hryllilega asnalega upp settur þannig að það þarf að skrolla niður til að finna upplýsingarnar) - tjaldsvæði á Vesturlandi eru á http://www.visiticeland.com/infosearch.asp?cat_id=76&area=VeLa&type=4&subtype=4.5.0&keyword=Eftir%20orði

Góða ferð og gangi ykkur vel að finna tjaldsvæði!


mbl.is Tjaldstæðið í Húsafelli yfirfullt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband