Leita í fréttum mbl.is

19. júní

er hátíðisdagur og í tilefni hans var ég að lesa umræður á feministapóstlistanum um fjallkonuna og mundi þá eftir að einu sinni var ég sko fjallkona og flutti þennan pistil sem á alveg eins við í dag:

Ávarp fjallkonunnar á Hofsósi 17. júní 2003:

 Góðir áheyrendur – gleðilega þjóðhátíð ! Þessi búningur, faldbúningurinn sem austanvatnamaðurinn Sigurður Guðmundsson málari hannaði seint á 19. öld, er orðinn órjúfanlega hluti af hátíðahöldunum á afmæli íslenska lýðveldisins. Um land allt stígur fjallkonan á stokk og flytur ættjarðarljóð eða ávarp. En ef til vill á þessi hefð sérstaklega heima hér í Skagafirði, á heimaslóðum Sigurðar og þar sem konur tóku höndum saman við hann um að gera þennan búning að því sem hann er í dag, tákni fyrir hið sjálfstæða Ísland. Sigurður Guðmundsson leit sjálfur svo á að þessi hönnun væri hans framlag til sjálfstæðisbaráttu íslendinga. Tilgangur hans var að tefla fram hátíðabúningi fyrir konur sem væri íslenskur og undirstrikaði ást þeirra og virðingu fyrir landi og þjóð. Hann var semsé að vinna með ímynd Íslands, sérstöðu þess og menningu, en þeirri vinnu er hvergi nærri lokið þó hún taki sífellt á sig nýjar myndir. En á tímum Sigurðar voru einnig sterkir straumar að berast okkur utan úr álfu um lýðræði, mannréttindi og einstaklingsfrelsi. Faldbúningurinn tengir saman tvo þræði í þessari réttindabaráttu, rétt íslendinga til að ráða sér sjálfir sem þjóð og rétt kvenna til að vera fullgildir þegnar í lýðræðislegu þjóðfélagi. Á þessum tíma bar hátt hugsjónir um frelsi, jafnrétti og bræðralag sem við erum farin að taka sem sjálfsagðan hlut í dag. Þá voru þetta byltingarkenndar hugmyndir, því frá örófi alda hafði hver einstaklingur sína meðfæddu stöðu. Veraldleg og andleg yfirvöld höfðu allan rétt til að ákveða hvaða athafnir og skoðanir mætti viðhafa, einnig að sakfella dæma og refsa fólki jafnvel með lífláti fyrir að hafa aðra sýn á heiminn. Það var því byltingarkennt að álíta að það hefðu allir einstaklingar grundvallarréttindi, það sem við köllum í dag mannréttindi. Réttinn til að ráða sínu lífi, lifa því frjáls svo lengi sem ekki væri gengið á frelsi náungans. En þrátt fyrir að við höfum búið við stjórnskipan og lög sem gera ráð fyrir þessu frelsi, jafnrétti og bræðralagi, lengur en elstu menn muna jafnvel, er ekki þar með sagt að þessar hugsjónir beri alltaf hátt í dægurumræðu eða daglegu lífi. Við erum enn að draga fólk í dilka, meta og flokka og oftar en ekki er niðurstaðan sú að heima sé best og hinir, þ.e. þeir sem eru ekki eins og við, séu eitthvað verri. Við gleymum því gjarnan að þeir hafa sömu mannréttindi og við, það er að vera það sem þeir sjálfir vilja vera, vera kallaðir því sem þeir sjálfir vilja kalla sig, búa þar sem þeir sjálfir vilja búa og trúa því sem þeir sjálfir vilja trúa; það gildir um Hofsósinga, hindúa og homma jafnt. Okkur finnst kannski að það hafi verið alveg aftur í öldum og eigi sér enga hliðstæðu í samtímanum að dönsk yfirvöld hafi einu sinni látið sér detta í hug að leysa Íslandsvandann þ.e. hallæri og hörmungar á Íslandi, með því að flytja alla íslendinga til Jótlands. En um allan heim er fólk að flytjast nauðugt viljugt heiman frá sér vegna ákvarðana annarra. Það er ekki eins sjálfsagt og ætla mætti að fólk fái að ákveða sjálft hvað það er og hvar og hvernig það vill lifa. Hvað það vill kalla sig og hvernig aðrir skilja það. Þetta á jafnt við á Raufarhöfn og í Ramallah, það er stigsmunur á því hvort hótunin um brottrekstur er einungis í orðum og efnahagslegum aðstæðum eða hreinlega með vopnavaldi. Það er því full ástæða til enn í dag að við vinnum að rétti allra til að njóta mannréttinda sinna, að þú fáir að vera þar sé þú vilt vera, þar sem þér finnst þú eiga heima, mér og mínum að meinalausu. En hvað er það þá að eiga einhversstaðar heima ? Lauris Edmond er nýsjálensk skáldkona sem orðaði þetta svona: Heima, það er þar sem líf þittheldur þér í greip sinniog þegar því hentar setur það þig hljóðlega niður.  

Það er semsagt líf þitt með þeim ákvörðunum, duttlungum, tilfinningum og tíma sem tengja þig við einhvern stað þeim böndum að þú kallar það heima. Það eru gjarnan bernskustöðvarnar sem við köllum heima, ef til vill vegna þess að í bernsku var skynjun okkar svo skýr, heimurinn nýr og athyglin vakandi. Þannig skynjuðum við umhverfi okkar betur og tengdumst því nánar en við gerum sem fullorðið fólk. Sem börn vissum við ekki hvað okkur ætti að þykja merkilegt eða fallegt, allt gat orðið okkur mikilvægt og minnisstætt; sprungin gangstéttarhella, frostrós á glugga, sólarlagið við eyjarnar.

 Við vorum nýkomin, eins og gestir og kannski er það hollt fyrir samband lands og þjóðar að við reynum að líta í kringum okkur glöggum gests augum, sjá það sem er, ekki það sem höldum eða viljum að sé hér. En þó er enn mikilvægara að við gleymum því aldrei að við eigum ekki landið við höfum það bara að láni frá komandi kynslóðum og við verðum að ganga um það eins og góðir gestir sem engu spilla, bara bæta. Til þess þurfum við að rækta tilfinningu okkar fyrir landinu og okkur sjálfum, skynja það og skilja að við erum í umhverfinu eins og í eigin líkama, við erum órjúfanlega hluti náttúrunnar. Það vildi Sigurður Guðmundsson sýna með táknmáli faldbúningsins þar sem faldurinn sjálfur táknar jöklanna tinda, útsaumurinn foldar skart. Við erum umhverfi okkar og heima er staðurinn þar sem við erum, þar sem við viljum vera, sem erum tilbúin að leggja eitthvað á okkur fyrir og vera stolt af.  Það er ekki afþví að heima hjá okkur sé merkilegra, fallegra eða skemmtilegra en hjá öðrum, heldur einfaldlega afþví að við völdum að vera hér og gera það gott. Til dæmis með því að halda hátíð eins og hér stendur til um næstu helgi, með því að drífa sig út að ganga til að efla líkama og sál, keyra krakkana á æfingu eða hvað það nú er í daglegu lífi sem við þurfum að gera til að láta brot af lífsdraumnum rætast. Þessvegna valdi ég hversdagslegt ættjarðarljóð í tilefni dagsins, það heitir Land og er eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur og ég vona að það tali til okkar allra hvar sem við eigum heima; á Íslandi, í Skagafirði, Út að austan, í Hjaltadal eða hvar sem hjartað býr í helli sínum: Ég segi þér ekkert um landiðég syng engin ættjarðarljóðum hellana, fossana, hverinaærnar og kýrnar um baráttu fólksinsog barning í válegum veðrum nei. En stattu við hlið mérí myrkrinu. Andaðu djúptog finndu það streyma segðu svo:Hér á ég heima.  Guðrún Helgadóttir

 


sumardagur á Hólum

bjartur og fagur, krakkar að busla í sundlauginni svo hlátrasköllin berast inn um skrifstofugluggann minn. Óli minn er einn við slátt í dag, slær og slær bæjarhólinn hér á Hólum, það er mikið verk að halda opnum svæðum hér snyrtilegum svo hæfi staðnum. Það rifjaðist upp vísa við að sjá aðfarirnar,

Brautarholtstúnið það grænkar og grær/svo grösin þar leggjast á svig./Ólafur slær, Ólafur slær/ Ólafur slær um sig.

Það má víst heimfæra þetta á tún í fleiri sveitum en Kjalarnesinu - en hér er náttúrlega ekki meiningin að grösin leggist á svig heldur verður bæjarhóllinn, kirkjugarðurinn, biskupagarðurinn, lautin og tjaldstæðin að vera eins og flos allt sumarið. Það er drjúgt verk en dásamlegt þegar vel tekst til enda fékk Hólaskóli verðlaun fyrir snyrtilegt umhverfi í fyrra.  


hvar ertu búinn að vera

síðan í vetur, bangsi? Eitt er þó víst að kortið sem fylgir með fréttinni gefur ekki rétta staðarákvörðun, hann  sást allmiklu austar, við Skagaafleggjarann en ekki Skagastrandarveg, enda er hann nú ekki á Þverárfjalli. Þó það sé strjálbýlt úti á Skaga þá er samt furðulegt að fullvaxið bjarndýr hafi verið á kreiki í fleiri mánuði án þess að nokkur yrði hans var.
mbl.is Ísbjörn við Þverárfjall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

enn einn árgangur

holautskrift08er floginn úr hreiðrinu Hólaskóla - Háskólanum á Hólum og það með glæsibrag! Helgi sagði á útskriftarathöfninni að í ljósi þess hve skólahald hófst snemma hér (1106) sé 60 ára útskriftarárgangurinn frá Bændaskólanum á Hólum bara tiltölulega nýúskrifaður! Enda talaði Pálmi Jónsson frá Akri, fyrrum landbúnaðarráðherra og fulltrúi 60 ára búfræðinga í sinni ræðu alltaf um þá strákana, sem útskrifuðust vorið 1948. Það var merkilegt að fara með honum í huganum aftur til þess tíma og velta fyrir sér breytingunum sem hafa orðið á skólastaðnum. Þá þurftu nemendur til dæmis að skiptast á að vakna um miðja nótt til að hita vatn í þvottapotti í skúr niðri við læk, til að sú hversdagslega athöfn að þvo þvott gæti farið fram. Þetta er eitt af þessum atriðum úr daglegu lífi hér, sem sjaldnast ratar á spjöld sögunnar. Það hefur mikið verið skrifað um biskupa og svolítið um skólastjórana, aðeins um líf skólapilta en miklu minna er vitað um ráðsmennina, ráðskonurnar, vinnufólkið eða hvernig var að vera barn á Hólum. Hvernig skyldi forverum mínum hafa líkað lífið á Hólum?

 


þá liggja úrslitin fyrir

glumdi um allan Hólastað áðan þegar úrslitin úr Skeifukeppninni voru tilkynnt. Keppnin fór fram úti á reiðvelli en núna klukkan þrjú hefst útskrift frá Háskólanum á Hólum í Þráarhöllinni. Í skólahúsinu er verið að leggja lokahönd á veislukaffið, strjúka í síðasta sinn yfir gólfin og tékka að réttu pappírnir séu í fínu svörtu möppunum með silfruðu merki skólans. Svo hefst hátíðin og við kennararnir munum sitja í salnum montin af okkar fólki eins og við værum mömmur þeirra - þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að svo sé ekki! Ferðamáladeild er að útskrifa annan árganginn sinn með BA gráðu og góðan hóp með diploma í ferðamálafræði. Það verða allir í sínu fínasta pússi og rektorinn í rektorskápunni og svo tilheyrir að verða svolítið kalt á myndatökunni og það er svolítið tregablandið að sjá á eftir fólkinu sínu eftir samveruna. Gleðin hefur þó völdin því góðum áfanga er náð og þau eru að fara að gera góða hluti, sum fara í spennandi störf og önnur ætla að halda áfram námi - til hamingju með daginn útskriftarnemar Hólaskóla - Háskólans á Hólum vorið 2008!

góðir grannar

eiga auðvitað að gleðjast saman á góðum degi, ráðherrar og þeirra næstu nágrannar og hugsanlegir eftirmenn. Þetta er fínn upptaktur að því að á sunnudaginn verður hér í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur Dagur barnsins. Mér þykir líka vænt um hvað þessi samverustund ríkisstjórnar og ríkisarfa (hér erfa jú allir landið!) er táknræn fyrir áherslu Samfylkingarinnar á málefni barna.
mbl.is „Barnaafmæli" í Ráðherrabústað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

útinám

er sem betur fer að verða viðurkennt í skólastarfi á öllum skólastigum. Það hafa hingað til þekkst vettvangsferðir, en við eigum enn nokkuð í land að gera útinám að jafn reglulegum þætti í skólastarfi og t.d. að taka frímínútur eða setja fyrir heimavinnu. Um daginn var ég svo heppin að vera beðin um að vera fundarstjóri á ráðstefnu um útinám sem var haldin á Sauðárkrók í tilefni af 100 ára afmæli Kennaraháskólans. Það var mjög áhugavert og umhugsunarvert fyrir mig - ekki síst þar sem kennslumatið í námskeiðunum mínum í ár og verkefni nemenda sýna að nám á vettvangi, það að fara á sýningar, taka þátt í viðburðum, hitta fólk á sínum vinnustöðum og skoða menningarlandslagið er það sem gefur fræðunum sem ég er að kenna miklu meiri merkingu. Að ekki sé nú minnst á það sem við öll þekkjum, að það að vera úti veitir vellíðan. Eftir þessar vangaveltur er ég komin að þeirri niðurstöðu að félagar mínir sem kenna náttúrutengda ferðaþjónustu, útivist og göngustígagerð séu ekkert einir um að geta boðið uppá útikennslu (skoðið sérstaklega myndirnar af göngustígagerð - þar eru verkleg handtök) - það er óþarfi að hanga alltaf inni í menningartengdri ferðaþjónustu við Háskólann á Hólum!

vorboðar ljúfir?

Ég stóð um stund á tröppunum heima í fyrrakvöld og horfði yfir Hjaltadalinn værðarlegan í kvöldkyrrðinn, gróðurilmur í lofti, grænkandi tún og Nýibær allur að taka lit. Náttúran ört vaknandi svo ég skundaði léttstíg til stofu, skellti mér í sófann hjá mínum heittelskaða og gerði atlögu að þeirri athygli sem hann beindi að þeim Evu Maríu og Röggu á skjánum. Beitti öllum mínum töfrum, blikkaði hann og renndi höndinni daðurslega gegnum hárið - sem rústaði reyndar algerlega stemmningunni.

Haldiði ekki að einn af fuglum himinins hafi notað tækifærið þar sem ég stóð í upphafinni náttúrudýrkun og skitið í hausinn á mér?

Þessi reynsla gefur mér alveg nýja sýn á kvæði þjóðskáldsins Jónasar; heilsaðu einkum ef að fyrir ber - hvað gekk manninum til með að panta kveðju frá þresti til þessarar stúlku með rauðan skúf í peysu?


samfylkingarblús?

Það ætti nú ekki að koma á óvart þó skipist eitthvað veður í lofti miðað við þær væntingar sem eru til míns ágæta flokks í samfélaginu. Þess er greinilega vænst að það skipti máli að Samfylkingin er í ríkisstjórn og að árangurinn láti ekki á sér standa. Góðir hlutir gerast nú samt því miður stundum hægar en vonir standa til en þá reynir á úthaldið. Samfylkingin getur tapað miklu áliti og þar með fylgi, með röngum vinnubrögðum. Vinnubrögðum, sem eru ekki í anda hugsjóna og stefnu flokksins.

Samfylkingin er flokkurinn sem sló nýjan tón með hugtökum á borð við samræðustjórnmál, flokkurinn sem vildi hafna átakastjórnmálum. Eðlilega höfðar það til alls almennilegs fólks að vilja leysa málin í sátt - en það leggur forystu flokksins aðrar skyldur á herðar en stjórnmálamenn á Íslandi hafa almennt undirgengist. Þar er efst á blaði að halda samtalinu við fólkið í landinu gangandi; að hlusta og tala hreint út við kjósendur í stað þess að þingmenn og ráðherrar láti sér nægja að krunka saman í sinn hóp, eða við embættismenn á stjórnarráðsreitnum. Það lofar því góðu hvað ráðherrar og þingmenn eru duglegir við fundahöld, bæði almenna stjórnmálafundi og málefnafundi. Nýjasta útspilið er svo útvarpsþáttur á Útvarp Sögu, svo það er greinilegt að samtalið heldur áfram.

Það þarf að tala hreint út um hvar hafa verið gerðar málamiðlanir og í hverju þær liggja. Það þýðir ekki að þegja en það þýðir heldur ekki að missa sig í pirring þegar á móti blæs. Það er annað um að tala en í að komast, annað að ráða en stjórna; í blárri fjarlægð stjórnarandstöðunnar frá valdastólum blasir það kannski ekki alveg við. Ef fólk er fyrst að fatta þetta núna er ekki seinna vænna og prófraunin er að halda rétt á stjórnvaldinu. Það er í þessu samtali kjörinna fulltrúa og fólksins í landinu sem er von til að halda því til haga að þó Samfylking og Sjálfstæðisflokkur séu saman í ríkisstjórn er þó ekki sami rassinn undir þeim báðum eins og sagt er.


óvinsælir vorboðar

eru líka til. Hrossagaukurinn, sem mér hefur orðið tíðrætt um getur orðið hvimleiður með sínu hvella kvaki fram á rauðanótt. Að ekki sé minnst á húsfluguna, sem er tæplega í húsum hæf. Hennar háværa suð ögrar ásetningi friðsemdarfólks um að gera ekki flugu mein. Kannski erum við bara ekki komin nógu langt í að nýta hana sem húsdýr - eða gæludýr. Mér datt þetta í hug í framhaldi af því atriði í Nóialbinói þar sem Nói og flugan leika listir sínar. Ef til vill ætti ég bara að líta á það sem  djúpstæða upplifun náttúrunnar að heyra þær suða og gruna að þær langi helst til að tylla sér á nefið á mér þar sem það gægist undan sænginni. Menningarlega sinnuð kona eins og ég á náttúrlega að muna að lítil fluga hefur orðið að indælu yrkisefni í tali og tónum...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband