Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ferðalög

heima á Hólum í fríi

ég er farin í frí en alveg staðráðin í að fara ekki lengra en út á pall að sleikja sólina, útá snúrur með gallabuxur að nota þurrkinn, kannski niður í sundlaug ef mér verður of heitt, eða fá mér ís. Hmm latte væri alveg drykkurinn í kaffitíma dagsins, ég tölti niður í bændó en í stað þess að fara í vinnuna fer ég á kaffihúsið, dæs... Það hefur sína kosti að búa á ferðamannastað! Ég gæti farið á tónleika með Skálholtskvartettnum í kvöld klukkan átta, ef ég er búin að hreyfa hrossin mín (þarf meira að segja ekki að standa upp frá tölvunni til að tékka á dagskránni http://www.holar.is/~tourist/atburdir.htm). Og svo er nýja gönguleiðakortið komið út, http://www.holar.is/fr435.htm ef mann fýsir að fara á fjöll. Ótrúlega notalegt að vera heima í fríinu!

tími vegarollunnar

áður en lengra er haldið vil ég upplýsa þig um að ég er vinur vegarollunnar eins og annarra vegfarenda. Nú er hennar tími og við eigum að víkja fyrir henni af þeirri einföldu ástæðu að sá vægir sem vitið hefur meira. Hún kann engar umferðarreglur og það gerir lítið fyrir okkur að keyra á hana þó við séum kannski í fullum rétti. Höfum við ekki annars örugglega meira vit, bílstjórarnir en vegarollan, hvað þá litla vegalambið?

Við vitum örugglega að helsta umferðarreglan er sú að haga akstri í samræmi við aðstæður. Aðstæður á íslenskum vegum á sumrin eru þær að þeir eru fullir af hinum hálfvitunum sem kunna ekkert að keyra, kindum, kúm, hestum, helv... fellihýsunum og hestakerrunum og túristunum að glápa útí loftið! Það væri nú hægt að æsa sig dáltíð yfir þessu. En til hvers? Við getum ekki breytt öðrum en við getum breytt okkar eigin góða degi í hreina martröð, jafnvel fyrir lífstíð með æsingi í umferðinni.

Gefum okkur tíma til að njóta í stað þess að þjóta, ánægjunnar og öryggisins vegna.

PS kíktu endilega á www.hugsandi.is og skoðaðu færsluna hennar Helgu Tryggvadóttir um hina íslensku þjóðkind...


barnvæn vegasjoppa

ég er alltaf jafn hrifin af hvernig er búið að börnum við Bauluna, sjoppuna við þjóðveg 1 milli Borgarness og Bifrastar, fyrir þá sem þekkja ekki allar sjoppurnar við hringveginn - sem eru reynda frábært athugunarefni útaf fyrir sig. Við Bauluna er afgirt svæði með útidóti fyrir yngstu vegfarendurna og opið úr kaffistofunni þangað út en ekki hægt að komast útá bílaplanið. Semsagt hægt að sameina kaffiþorsta fullorðinna og leikgleði barna.

ég hef lengi vitað að Hvammstangi er flottur

eða alveg frá því að ég var 4-5 ára, þá var ég sumar í sveit í Grafarkoti með mömmu og Madda bróður. Það var eitthvað flott við að koma niður verkstæðisbrekkuna, horfa yfir höfnina og þar blasir við þetta reisulega hús Verslun Sigurðar Pálmasonar - og nú er það algerlega gengið í endurnýjun lífdaganna sem Selasetur Íslands (kíkið á www.selasetur.is ). Alger bæjarprýði, en reyndar hafa íbúar verið duglegir að rækta garðinn sinn og halda við húsum.

Fyrir nokkrum árum - vá eru þau orðin tíu?! Var ég svo heppin að tvær stelpur úr textíldeild Myndlista- og handíðaskólans vildu vinna verkefni á Hvammstanga með tilstyrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna og fá mig sem umsjónarmann. Ég var rosalega montin af hvað þær voru hrifnar af plássinu en þá hafði ég ekki komið þangað ansi lengi. Síðan hafa atvikin hagað því svo að ég á oftar leið þarna um útaf vinnunni og ég verð alltaf sannfærðari um barnatrú mína á Hvammstanga.

Ég var þar í gær í blankalogni og sól, reyndar er Miðfjörðurinn nú oftar hvítfextur í minningunni en það er alveg jafn flott. Ég naut þess að skoða sýninguna í Selasetrinu og kíkja í Bardúsu - í nafni menningarinnar því ég var að funda vegna menningarráðs norðurlands vestra. Túrkisbláir flókaeyrnalokkar hvísluðu nafnið mitt svo ég leyfði þeim að koma með mér heim, þeir eru svolítill sjór en það er kannski það eina sem er hægt að sakna á Hólum. En móti kemur að hitastigið á sumrin er jafnan hæst í innsveitum ...


« Fyrri síða

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband