Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
16.5.2008 | 15:29
samfylkingarblús?
Það ætti nú ekki að koma á óvart þó skipist eitthvað veður í lofti miðað við þær væntingar sem eru til míns ágæta flokks í samfélaginu. Þess er greinilega vænst að það skipti máli að Samfylkingin er í ríkisstjórn og að árangurinn láti ekki á sér standa. Góðir hlutir gerast nú samt því miður stundum hægar en vonir standa til en þá reynir á úthaldið. Samfylkingin getur tapað miklu áliti og þar með fylgi, með röngum vinnubrögðum. Vinnubrögðum, sem eru ekki í anda hugsjóna og stefnu flokksins.
Samfylkingin er flokkurinn sem sló nýjan tón með hugtökum á borð við samræðustjórnmál, flokkurinn sem vildi hafna átakastjórnmálum. Eðlilega höfðar það til alls almennilegs fólks að vilja leysa málin í sátt - en það leggur forystu flokksins aðrar skyldur á herðar en stjórnmálamenn á Íslandi hafa almennt undirgengist. Þar er efst á blaði að halda samtalinu við fólkið í landinu gangandi; að hlusta og tala hreint út við kjósendur í stað þess að þingmenn og ráðherrar láti sér nægja að krunka saman í sinn hóp, eða við embættismenn á stjórnarráðsreitnum. Það lofar því góðu hvað ráðherrar og þingmenn eru duglegir við fundahöld, bæði almenna stjórnmálafundi og málefnafundi. Nýjasta útspilið er svo útvarpsþáttur á Útvarp Sögu, svo það er greinilegt að samtalið heldur áfram.
Það þarf að tala hreint út um hvar hafa verið gerðar málamiðlanir og í hverju þær liggja. Það þýðir ekki að þegja en það þýðir heldur ekki að missa sig í pirring þegar á móti blæs. Það er annað um að tala en í að komast, annað að ráða en stjórna; í blárri fjarlægð stjórnarandstöðunnar frá valdastólum blasir það kannski ekki alveg við. Ef fólk er fyrst að fatta þetta núna er ekki seinna vænna og prófraunin er að halda rétt á stjórnvaldinu. Það er í þessu samtali kjörinna fulltrúa og fólksins í landinu sem er von til að halda því til haga að þó Samfylking og Sjálfstæðisflokkur séu saman í ríkisstjórn er þó ekki sami rassinn undir þeim báðum eins og sagt er.
27.3.2008 | 14:23
daprar stundir
í miðborg Reykjavíkur eru greinilega mun fleiri en þær, þegar húsin á horni Lækjargötu og Austurstrætis brunnu. Vilhjálmur þáverandi borgarstjóri kallaði það dapra stund og hafði þetta að segja um viðbrögð og uppbyggingu: Ég legg áherslu á það að það verði gengið hratt til leiks og þetta verði ekki látið drolla í einhver misseri eða ár. Þetta er hjarta bæjarins og þarna verðum við að ganga vel um.
Ég er sammála þessu - en hvað dvelur orminn langa? Hversvegna er ástandið eins og Torfusamtökin lýsa í sinni ályktun? Ætlar borgarstjórn Reykjavíkur að sýna menningu okkar og umhverfi virðingu eða ætlar hún að halda áfram að virða meira hagsmuni stundargróðapunganna?
24.1.2008 | 21:46
í Reykjavíkurhrepp
er raunalegt ástand. Borgarstjórinn nýbakaði hélt því fram í Kastljósi áðan að á netinu væri samblástur gegn honum og auðvitað að fjölmiðlar kyntu undir. Honum væri nær að sætta sig við að lifa á tímum þar sem hver og einn sem kemst í netsamband getur tjáð sig um stjórnmál, það er svona virkt lýðræði sem er ekki ritstýrt af flokksmálgögnum eins og í gamla daga. Þegar stjórnmálamanni finnst allir vera á móti sér - þá er kannski eitthvað til í því. Og það er alvarlegt mál í lýðræðisþjóðfélagi að sitja við völd í óþökk almennings. Bjúgverpillinn gæti komið aftur, svo vitnað sé nú í hann sjálfan - reyndar í tengslum við annað plott ef ég man rétt, en ætli það sé ekki jafn vont og að fá hnífasett í bakið?
22.1.2008 | 12:04
blindsóló er slæm pólitík
Ekki verður þetta upphlaup til að auka traust almennings á stjórnmálamönnum. Ólafur hefur ekki getað bent á neitt bitastætt sem bæri á milli í stefnu hans og fyrrverandi samstarfsaðila - nema að hann hafi ekki fengið nógu mikla nefndasetu eða e-ð. Er það traustvekjandi stjórnmálamaður sem tekur svona ákvörðun án samráðs við fólkið sem hann bauð sig fram með? 2. og 3. maður á lista Frjálslyndra og óháðra (eða öllu heldur Óháðra og frjálslyndra miðað við að flokksaðild frambjóðenda) vissu ekkert af þessu!
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að vaxa af gerðum fólks sem hefur geð í sér til að kaupa aumingja Ólaf með að lofa honum að tylla sér í borgarstjórastólinn smástund, í stað þess að sýna að það geti staðið stjórnmálavaktina hvort sem er í meirihluta eða minnihluta. Það er alveg rétt hjá Steingrími - þó þau ráð komi nú kannski úr óvæntri átt; að menn eigi að jafna sig og sleikja sárin í minnihluta og taka því eins og menn.
Nú skal manninn reyna, ég dáist að Margréti Sverrisdóttur, Svandísi Svavarsdóttur og Degi Eggertssyni fyrir að taka þessum ótíðindum með tiltölulegu jafnaðargeði. Haldið kúlinu - þið eruð framtíðarfólk, meira en hægt er að segja um suma í stöðunni.
![]() |
Stjórnarskiptin til marks um örvæntingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.12.2007 | 19:09
silfur refirnir
eða álitsgjafarnir hans Egils komu auðvitað með ýmsar athugasemdir um árið almennt, einkum þó í pólitíkinni. Sumt var eiginlega óborganlega fyndið einsog framsóknarkonan sem fantaserar um Össur á nærunum einum saman við skjáinn að næturlagi. Umhyggja mín fyrir heilsu og velferð iðnaðarráðherra er hinsvegar slík að ég vona bara að hann bregði yfir sig slopp svo slái ekki að honum við þessar aðstæður.
Það var annars umhugsunarefni að heyra tvo ráðherra með reynslu tala um það sem sérstakt fyrir þessa ríkisstjórn að þar virðast eiga sér stað skoðanaskipti um stjórnmál. Þetta er svolítið sorglegur vitnisburður um þá pólitísku vegferð sem er að baki undanfarna áratugi. Ef til vill er þetta það sem skiptir hvað mestu máli við að hér varð til ríkisstjórn ólíkra afla, að fólk neyðist uppúr pólitísku hjólförunum sínum til að finna lausnir á málunum. Rútínan í stjórnmálunum er rofin - sem er hið besta mál.
Vonandi verður hið nýja ár farsælt fyrir stóra og smáa, nær og fjær!
19.12.2007 | 15:19
hrepparígur
14.6.2007 | 15:25
nei heyriði mig nú!
![]() |
Kosið í nýtt Seðlabankaráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2007 | 10:29
má bjóða okkur hroka og spillingu áfram ekkert stopp?
Heyrðuð þið Sigurð Kára hlæja að frambjóðanda Frjálslynda flokksins í beinni í morgun? Viljum við alþingismenn sem geta ekki einu sinni sýnt almenna kurteisi í umgengni við annað fólk? Hvernig stendur á því að Björn Bjarnason skammast sín ekki einu sinni fyrir að vinavæða embætti aðstoðarlögreglustjóra, ætlar að fresta því fram yfir kosningar en samt klára áður en næsti ráðherra tekur við, að ráða ríkissaksóknara? Er það afþví hann hefur áður komist upp með að ráða vildarvini og vandamenn forystu síns flokks í embætti þrátt fyrir harða gagnrýni? Ætlum við að bjóða Árna Johnsen annan sjéns á tæknilegum mistökum, er okkur alveg sama þó hann hafi verið staðinn að því að stela af okkur? Eigum við að láta bjóða okkur þetta mikið lengur?
Vald spillir, þeir sem hafa setið of lengi verða samdauna spillingunni og þurfa að standa upp úr stólunum og viðra sig aðeins - gefum okkur langþráð frí frá þeim!
16.4.2007 | 07:53
Steingrímur J. genginn í Samfylkinguna aftur
Ég var einmitt að furða mig á því að hann tók ekki þátt í því að kynna kosningastefnu flokksins um daginn. Í sjónvarpsfréttum af þeim fundi sást Steingrímur hvergi - reyndar sást enginn af körlunum úr forystu Vinstri grænna, eiginlega enginn kall yfirleitt.
Nú liggur þetta ljóst fyrir, ég sá það í sjónvarpsfréttunum í gær - talið var að vísu ekki á, en ég sá að Steingrímur er kominn heim í Samfylkinguna. Mættur í pylsupartí á kosningaskrifstofunni í Reykjavík og Ingibjörg Sólrún bauð honum pylsu, einhverntíma hefði nú verið slátrað kálfi en látum það vera.
3.4.2007 | 11:40
fælingarmáttur lýðræðisins?!
Ég hélt mig væri að dreyma einhverja vitleysu í morgun þegar ég heyrði í gufunni að einhverjir aðilar væru nú uppfullir af áhyggjum af því að íbúalýðræði fæli erlenda fjárfesta frá Íslandi!!! Það er bara gott mál ef Hafnfirðingum hefur tekist með sinni atkvæðagreiðslu að þvo burt bananalýðveldisstimpilinn sem stóriðjustjórnvöldin hafa sett á Ísland með orkuútsölunni sem þau hafa staðið fyrir undanfarna áratugi.
Er þessu fólki alvara með því að leggja það inní umræðuna í einu elsta lýðræðisþjóðfélagi heims að við megum ekki fæla erlend stórfyrirtæki með atkvæðagreiðslum? Er þetta ekki bara bergmál frá 3. heiminum þar sem fólki er tekinn vari við að fæla erlend stórfyrirtæki frá með verkalýðsbaráttu, kröfum um mannsæmandi aðbúnað og kjör og afnámi barnaþrælkunar? Þetta er nú meiri undirlægjuhátturinn!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007