Leita í fréttum mbl.is

barnvæn vegasjoppa

ég er alltaf jafn hrifin af hvernig er búið að börnum við Bauluna, sjoppuna við þjóðveg 1 milli Borgarness og Bifrastar, fyrir þá sem þekkja ekki allar sjoppurnar við hringveginn - sem eru reynda frábært athugunarefni útaf fyrir sig. Við Bauluna er afgirt svæði með útidóti fyrir yngstu vegfarendurna og opið úr kaffistofunni þangað út en ekki hægt að komast útá bílaplanið. Semsagt hægt að sameina kaffiþorsta fullorðinna og leikgleði barna.

ég hef lengi vitað að Hvammstangi er flottur

eða alveg frá því að ég var 4-5 ára, þá var ég sumar í sveit í Grafarkoti með mömmu og Madda bróður. Það var eitthvað flott við að koma niður verkstæðisbrekkuna, horfa yfir höfnina og þar blasir við þetta reisulega hús Verslun Sigurðar Pálmasonar - og nú er það algerlega gengið í endurnýjun lífdaganna sem Selasetur Íslands (kíkið á www.selasetur.is ). Alger bæjarprýði, en reyndar hafa íbúar verið duglegir að rækta garðinn sinn og halda við húsum.

Fyrir nokkrum árum - vá eru þau orðin tíu?! Var ég svo heppin að tvær stelpur úr textíldeild Myndlista- og handíðaskólans vildu vinna verkefni á Hvammstanga með tilstyrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna og fá mig sem umsjónarmann. Ég var rosalega montin af hvað þær voru hrifnar af plássinu en þá hafði ég ekki komið þangað ansi lengi. Síðan hafa atvikin hagað því svo að ég á oftar leið þarna um útaf vinnunni og ég verð alltaf sannfærðari um barnatrú mína á Hvammstanga.

Ég var þar í gær í blankalogni og sól, reyndar er Miðfjörðurinn nú oftar hvítfextur í minningunni en það er alveg jafn flott. Ég naut þess að skoða sýninguna í Selasetrinu og kíkja í Bardúsu - í nafni menningarinnar því ég var að funda vegna menningarráðs norðurlands vestra. Túrkisbláir flókaeyrnalokkar hvísluðu nafnið mitt svo ég leyfði þeim að koma með mér heim, þeir eru svolítill sjór en það er kannski það eina sem er hægt að sakna á Hólum. En móti kemur að hitastigið á sumrin er jafnan hæst í innsveitum ...


jess!

það er ekki að spyrja að blessaðri blíðunni í minni sveit. Gleymið bara þessu bloggi þarna um daginn um snjóinn. Nú er allt komið í sitt rétta horf, búið að slá bæjarhólinn, kaupa inn ísinn og sundlaugin opin - sveimér ef það er ekki komið sumar á Hólum. Það koma upp í hugann fögur fyrirheit um fjallgöngur og útivist, góð byrjun að fara uppí Gvendarskál og svo bíð ég spennt eftir nýja gönguleiðakortinu um norðanverðan Tröllaskagann sem er að koma úr prentun. ganga2
mbl.is Allt að tuttugu stiga hiti á Norðurlandi í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

fyrstu útskrift úr BA náminu lokið

jónþórútskrifastJæja þá erum við starfsfólk Háskólans á Hólum farin að snerta jörðina aftur eftir glæsilega útskrift, 65 manns að útskrifast þar á meðal fyrstu nemendurnir úr BA námi í Ferðamálafræði sjá http://www.holar.is/fr420.htm.

Fyrstu BA ferðamálafræðingarnir eru hópur sem hefur svo sannarlega sýnt í sínum verkum hversu fjölbreytt fræðasvið og atvinnugrein ferðamálin eru. Lokaverkefnin þeirra voru um svo ólíka hluti; markaðssetningu áfangastaða, myrka ferðaþjónustu, leiklist og ferðaþjónustu, lækningaferðaþjónustu, þjónustu við farþega skemmtiferðaskipa og svo gæti ég haldið áfram að telja. Þetta var mikill áfangi bæði fyrir okkur sem sitjum eftir til að taka á móti næstu kynslóðum nemenda og þau, sem fóru útí vorið á laugardaginn til að taka þátt í uppbyggingunni á ferðamannalandinu Íslandi. Þau eru að vinna við ferðaþjónustu í sumar, en í haust hafa nokkur tekið stefnuna á meistaranám.  Hér er mynd af Jóni Þór Bjarnasyni að taka við hamingjuóskum frá rektor. Jón Þór er reyndar með mynd og frétt á sínu bloggi:  http://drhook.blog.is/blog/drhook/entry/222505/


þurfa stjórnmálakonur að vera miklu miklu miklu miklu hæfari en karlarnir?

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að jafnrétti í reynd verði leiðarljós í allri stefnumótun hennar og stefnir að því að skapa jöfn tækifæri allra landsmanna, óháð kyni, búsetu, uppruna og félagslegri stöðu.

Þessi yfirlýsing er bæði glæsileg og mikilvæg og því skora ég á sjálfstæðisfólk, samfylkingarfólk og alla jafnréttissinna að beita báða flokkana þrýstingi um efndir. Í því sambandi verð ég að segja að ráðherraskipan sjálfstæðismanna er ekki í þessum anda og þetta kemur mjög illa út sérstaklega þegar efndir þeirra eru bornar saman við það jafnræði sem Samfylkingin hefur milli kynja í þessum mikilvægu stöðum. Þetta  eiga jafnréttissinnar að gagnrýna og sýna þar með þeim fjölmörgu hæfu sjálfstæðiskonum sem þarna var gengið framhjá, samstöðu. En fyrst og fremst verða sjálfstæðiskonur að taka til sinna ráða. Það gerði formaður Samfylkingarinnar með því að fylgja óhikað þeirri stefnu að jafna hlut karla og kvenna í áhrifastöðum þó að prófkjör flokksins hafi þýtt að margar mjög hæfar konur færðust neðar á framboðslistanna en efni stóðu til. Sjálfstæðismenn munið orð eins fallins forystumanns ykkar: Vilji er allt sem þarf! Það á við núna þó þau orð hafi verið sett fram í öðru samhengi.


hin hundfúlu

jæja, nú er hefur meirihluta kjósenda orðið að þeirri ósk sinni að skipta um stjórn. Það er ekki annað í stöðunni en að óska þessari ríkisstjórn alls góðs og að störf hennar verði landi og þjóð til heilla. Það geri ég af heilum hug og ég vona að hin hundfúlu meðal talsmanna VG og Framsóknar fari nú að komast yfir verstu vonbrigðin.  Það er stjórnmálamönnum einsog Guðna Ágústssyni og Steingrími J. til lítils sóma að vera með langsóttar teoríur um hverjum öðrum en þeim sjálfum er um að kenna að þeir eru ekki að setjast í ráðherrastólana. Flokkur Guðna tapaði fylgi kjósenda ogflokkur Steingríms undir hans stjórn, lék greinilega tveim skjöldum og situr svo eftir vinalaus -  á brúsapallinum með bláa slaufu eins og maðurinn sagði...


svona eiga góðir dagar að vera

ég vaknaði í glaðasólskini á þessum sunnudagsmorgni - 30 ára brúðkaupsafmæli okkar Helga, hvorki meira né minna (ég bara varð að nefna þetta, ótrúlegt en satt hvað tíminn flýgur, þið látið það ekkert lengra fara)! Hress og kát að sjá að hann var horfinn, snjórinn, sem hafði fest hér í nótt þegar við komum heim af árshátíð starfsmannafélagsins. Skemmtiatriðin voru drepfyndin, maturinn góður og Sixties sá um að láta fólk teygja búkinn og hrista eins og Stuðmenn hafa löngum ráðlagt. Það er örugglega gott fyrir heilsuna, andlega og líkamlega. Við gömlu hjónin (við erum náttúrlega farin að skipuleggja gullbrúðkaupið og búin að reikna út að við verðum 93 og 96 á demantsbrúðkaupinu, lengra nær það skipulag nú ekki) drifum okkur að leggja á þær Gránu og Sóldísi og taka hringinn í Tungunni í blíðunni. Vonandi verður fullt hús af gestum á eftir, Samfylkingarfólk að hittast til að halda uppá skemmtilega kosningabaráttu og það lítur betur út með grillið en veðurspáin gerði ráð fyrir.


ekki gekk rófan

eins og kerlingin sagði, ríkisstjórnin lafði. Kröftunum var þó vel varið í pólitíkina og takk fyrir samstarfið kæru samherjar! Það er mikið verk að vinna í stjórnmálum á Íslandi hvort sem minn flokkur, Samfylkingin, er í stjórn eða stjórnarandstöðu þá verðum við að standa vaktina um velferð og lýðræði. Það er aldrei leiðinlegt, ekki einu sinni þegar atkvæðin uppúr kössunum reyndust aðeins of fá til að björtustu vonir rættust.

má bjóða okkur hroka og spillingu áfram ekkert stopp?

Heyrðuð þið Sigurð Kára hlæja að frambjóðanda Frjálslynda flokksins í beinni í morgun? Viljum við alþingismenn sem geta ekki einu sinni sýnt almenna kurteisi í umgengni við annað fólk? Hvernig stendur á því að Björn Bjarnason skammast sín ekki einu sinni fyrir að vinavæða embætti aðstoðarlögreglustjóra, ætlar að fresta því fram yfir kosningar en samt klára áður en næsti ráðherra tekur við, að ráða ríkissaksóknara? Er það afþví hann hefur áður komist upp með að ráða vildarvini og vandamenn forystu síns flokks í embætti þrátt fyrir harða gagnrýni? Ætlum við að bjóða Árna Johnsen annan sjéns á tæknilegum mistökum, er okkur alveg sama þó hann hafi verið staðinn að því að stela af okkur? Eigum við að láta bjóða okkur þetta mikið lengur?

Vald spillir, þeir sem hafa setið of lengi verða samdauna spillingunni og þurfa að standa upp úr stólunum og viðra sig aðeins - gefum okkur langþráð frí frá þeim!


þegar óskirnar rætast

ég las stefnu Samfylkingarinnar Jafnvægi og framfarir um daginn. Í fluginu suður, fannst ég verða að vera með á nótunum í aðdraganda kosninga. Var bara ánægð - langt síðan ég hef lesið eitthvað um efnahagsmál á mannamáli. Svo stakk ég bæklingnum í töskuna og vonaði bara að kjósendur almennt læsu þessa skynsamlegu stefnu og hrifust af henni. Nema hvað ósk mín rætist heldur betur, eiginmaðurinn greip bæklinginn næst þegar ég tók til í töskunni - las hann í hvelli og var eiginlega ekki til viðtals um annað en jafnvægi og framfarir í efnahagsmálum í fleiri daga! Þetta er semsagt mjög áhrifaríkur bæklingur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband