Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

farfuglaheimili í heimsklassa

3560 Til hamingju með að vera á lista yfir 10 bestu farfuglaheimili í heimi í ykkar flokki, farfuglaheimilið á Ósum í Húnaþingi vestra! Sjá nánar á vef Ferðamálastofu.


handverk og hefðir

ég er á leiðinni á ráðstefnu Heimilisiðnaðarfélagsins Handverkshefð í hönnun , vonandi verður tími til að skoða eitthvað af sýningunum sem eru í tengslum við þetta. Ég ætla að kynna Fornverkaskólann aðeins í leiðinni en sú hugmynd er alveg að gera sig, fullt af fólki vill læra vinnubrögðin sem þarf til að halda við gömlu handverki í byggingalist. Kem við í Glaumbæ til að halda fund í menningar- og kynningarnefnd um safnasvæðið, við þurfum að vinna í því að gera það betur úr garði til að taka við auknum gestakomum. Það dregur ekki úr áhuganum að fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós skála frá landnámsöld. Semsagt, athyglin er á menningararfinn þessa stundina. Svo er Laufskálarétt um helgina, reyndar er hún eiginlega eitt besta dæmið um hvernig hefðir og verkmenning (að smala hrossunum úr afrétt og rétta) verður að viðburði - hátíð í samtímanum.


í útlöndum

Elísabet vinkona er á Írlandi ein að skrifa og skrifar um lonelyness á blogginu sínu. Samt er allt fullt af fólki, ókunnugu fólki. Ég sendi henni ljóð, sem ég man ekkert hvenær ég samdi en það er um að vera ein í útlöndum

Ein

Það er svo gott

að ganga  ein

um óþekkt stræti

 

að hlusta ein

á útlent regn

 

að vera ein

í ókunnum stað

 

þó gæti verið gott

 

á götunni fram eftir veg

að heyra fleiri fóta tak

 


haustið góða, rautt og gult -

ég er komin til byggða, komst í réttirnar, dró nokkrar hyrndar ær - ber þess enn merki en hélt röddinni - sem eins gott. Kennslan í Háskólanum á Hólum er nefnilega komin á fullt og ég kenni aðferðafræði í stífri lotu fyrsta mánuðinn. Nýnemavikan, sem áður hét fjarnemavikan var mjög vel heppnuð í ár (http://www.holar.is/fr456.htm) og eins og svo oft áður er ég með alveg einstaklega efnilegan nemendahóp. Mér finnst reyndar að mér hafi fundist þetta á hverju ári meira og minna allan minn kennsluferil. Það hlýtur bara að benda til þess að heimur fari batnandi!

göngur og réttir

ég segi nú bara eins og skáldið forðum: Eins mig fýsir alltaf þó, aftur að fara í göngur... Það er á morgun sem bændur og búalið í Viðvíkursveit og Hólahrepp hinum forna smala. Ég er ekki bóndi og tæplega búalið, en fæ samt að smala. Það er ótrúlega skemmtilegt, jafnvel í fyrra þegar við riðum frameftir með húðaslagveðursrigningu í bakið og hún breyttist í slyddu þegar ofar dró... Mér varð hugsað til forfeðra okkar og formæðra. Úr því þau höfðu þetta oftast af - þá var mér engin vorkunn á stríðaldri meri, stríðalin sjálf og í skjólfötum sem þekktust ekki þá. Svo hitnar manni náttúrlega af smalaæðinu! Við Grána förum fram á Kolbeinsdal á eftir og  vonandi á Heljardal á morgun. Séð af Elliða yfir Kolbeinsdal í Heljardal á sumardegi.

HeljardalursedafEllida


ég er í fjallaþorpi

litlu, fallegu fjallaþorpi sem er að taka á sig haustblæ. Ég ætla að vera hérna áfram. Í garðinum bakvið næsta hús frýsa tveir brúnir hestar, síðustu ferðamennirnir eru að taka myndir af húsinu á móti - sem er dæmi um forna byggingalist, dómkirkjuklukkurnar hringja til messu og kvöldbæna, ég kemst ekki yfir að nýta öll berin á runnunum eða fara til berja í fjallinu. Það vantar þó það, sem oft sést á póstkortum af svona fallegum fjallaþorpum; gamla fólkið sitjandi á bekk. Það er að vísu bekkur í Biskupagarðinum, en elsti íbúinn er bara rúmlega sextugur og má ekkert vera að því að sitja á bekknum og horfa á sér yngra fólk að leik og störfum. Þetta er nefnilega ekki þorp þar sem sama fjölskyldan býr mann fram af manni, þetta er háskólaþorp þar sem fólk hefur komið í 9 aldir til að læra og vinna en halda svo eitthvað annað. Ungt fólk, vinnukonur og vinnumenn, ráðsmenn og ráðskonur, skólapiltar og nú í seinni tíð háskólanemar af báðum kynjum komu hingað. Sagan segir að það séu ófáar fjölskyldurnar, sem var stofnað til hérna gegnum tíðina. Ég hef heyrt því haldið fram að öll þessi þjóð geti rakið ættir sínar til eins af biskupunum sem hér voru í kaþólskum sið, hvort sem það er nú rétt. Það er ekki nema von að haft sé á orði að fara heim að Hólum.


Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband