Leita í fréttum mbl.is

að vera eða vera ekki

á moggablogginu er vissulega spurning sem ég hef velt fyrir mér. Mér finnst hreint með ólíkindum að eigendur blaðsins skuli þurfa að draga margfaldan eftirlaunaþega uppá dekk sem ritstjóra og það sem verra er; segja upp fullt af hæfum og góðum blaðamönnum - kannski til að hafa efni á þessu gulli og gersemi? Niðurstaðan er sú að ritstjórnarstefnan er greinilega að gera blaðið aftur að flokkssnepli.

 En bloggið hefur hingað til ekki lotið ritstjórnarvaldi og þannig verður það vonandi áfram. Því sé ég enga ástæðu til að yfirgefa moggabloggið þó mér mislíki ráðning ritstjóranna. Þá þess heldur að einhver sé eftir hér til að rífa kjaft.


það á ekki að þurfa að orða það sem er sjálfsagt

að Morgunblaðið muni hafa heiðarleika og vandaðan fréttaflutning í fyrirrúmi. Það að útgefandinn þurfi að taka það sérstaklega fram í tilefni af því að 30 starfsmönnum er sagt upp til að rýma til fyrir fyrrverandi pólitíkusi á bullandi ofureftirlaunum hjá íslensku þjóðinni segir mér bara eitt: Þetta er ekki sjálfsagt. Það segir mér það að nú standi til að gera Moggann að gamaldags flokksmálgagni Sjálfstæðisflokksins enn á ný. Tími frjálsrar fjölmiðlunar er liðinn ef bláa höndin á að halda um ritstjórnartaumana.
mbl.is Davíð og Haraldur ritstjórar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

eigum við ekki að vera með svörin hvort eð er?

Hvaða bull er þetta? Auðvitað eigum við að vera með allar þessar upplýsingar á hreinu, ESB á ekki að geta dottið í hug spurning um okkur sem við vitum ekki svarið við. Það er reginmunur á íslenskri stjórnsýslu og t.d. Svartfjallalands að því leyti að við söfnum lykilupplýsingum s.s. um mannfjölda, vísitölur, atvinnuleysi etc. etc. jafnóðum og birtum árlega ef ekki oftar. Allar ríkisstofnanir eiga að skila ársskýrslum svo það er gífurlegt magn upplýsinga um íslenskt þjóðfélag fyrirliggjandi og því erum við vel í stakk búin að safna þeim saman. Margar Evrópuþjóðir styðjast enn við manntal sem gert er á nokkurra ára fresti til að fylgjasta með þróun mannfjölda. Hér er þetta uppfært árlega, bara svo dæmi sé tekið. Þó Jón Bjarnason evrópuandstæðingur tuði um að það verði svo mikil vinna í landbúnaðar og sjávarútvegsráðuneytunum að taka saman upplýsingar tek ég því með fyrirvara. Eða hafa samningar um niðurgreiðslu landbúnaðarvöru eða úthlutun aflaheimilda ekki verið teknar á grundvelli upplýsinga hingað til?
mbl.is Búa sig undir spurningaflóðið frá ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

jæja þá er hægt að vinda sér í

öll málin sem bíða afgreiðslu Alþingis. Ríkisstjórnin er búin að leggja fram fjölda frumvarpa, meðal annars tvö sem snúast um bætt umhverfi sprotafyrirtækja - ekki veitir af að styðja við nýsköpunina. Ég er stolt af norðvesturþingmanninum Guðbjarti Hannessyni samfylkingarmanni sem hefur leitt fjárlaganefnd í gegnum þetta ferli ákveðinn en yfirvegaður. Tilbreyting að sjá stjórnmálamann sem hefur meiri áhuga á að leysa málin en að berja á meintum andstæðingum sínum.
mbl.is Icesave afgreitt úr nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja Ísland er skammt á veg komið

gildismatið er líklega ekki farið að breytast að ráði. Störf með börnum, uppeldisstörf eru enn vanmetin og fólk virðist frekar vilja vera atvinnulaust en að takast á við þau. Það er sorglegt, því það gæti verið mikið tækifæri að fólk með fjölbreytta reynslu og menntun kæmi inn í frístundastarfið.
mbl.is 100 vantar til starfa á frístundaheimilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

hrunprins í glerhúsi og ungi litli

ættu að finna sér eitthvað uppbyggilegra til dundurs en grjótkast og heimsendaspár.  Það þarf að ná lendingu í ólgusjó á þjóðarskútu sem frjálshyggjuliðið stórskaðaði með því að opna fyrir botnlausa
græðgis og vinavæðingu sem báðir flokkar stunduðu. Þannig að það er ekki trúverðugt þegar Ungi litli hrópar himininn sé nú að hrynja. Formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson hefur sýnt aðdáunarverða þolinmæði og stillingu í að stýra vinnu nefndarinnar við að skoða kostina ofan í kjölinn - líklega kemur sér vel að hann hefur áralanga reynslu af því að stýra barnaskóla. Við höfum ekki efni á málþófi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, það þarf að höggva á hnútinn og ganga frá þessum fyrirvörum við samninginn. Fyrr reynir ekki á það hvort viðsemjendurnir viðurkenna þá.
mbl.is Stórskaðar hagsmuni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

nú?

Þór, er ekkert að ganga með hefðbundin pólitísk hrossakaup eins og þið reynduð um daginn? Eða var það kannski bara hefðbundið pólitískt siðleysi að selja sannfæringu sína í einu máli fyrir eitthvað annað?
mbl.is Hefðbundið pólitískt ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

hvar er ítarleg umfjöllun Mbl um bankaránið?

Mér finnst furðulegt að lesa mbl.is þessa helgina, þar er bara talað um veðrið og þagað þunnu hljóði um þær upplýsingar sem almenningur er nú að fá að sjá sem sýna að það var einfaldlega framið hvítflibbabankarán hér í fyrrahaust. Hvað þá heldur um tilburði bankamanna til að þagga niður í fjölmiðlum. Ég bíð spennt eftir ítarlegum fréttaskýringum. Ég vil að þessi stóri fjölmiðill taki þátt í að moka flórinn eftir frjálshyggjusukkið.
mbl.is Vill aflétta bankaleynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ekkert nýtt

í þessum ummælum, við erum búin að vera að taka upp regluverk ESB í fjölmörgum málaflokkum bæði vegna þess að ESB er okkar stærsti markaður og vegna Schengen samkomulagsins. Hitt er athyglisvert ef ESB lítur á Ísland sem mikilvægan útvörð vegna hugsanlegra siglingaleiða, spurning hvað það þýðir.
mbl.is „Aðildarferlið vel á veg komið"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

giftur maður

er í áköfum atlotum við einstakling utan hjónabandsins. Hann segir svo frá að hann muni ekki taka frekari þátt í atlotunum, þar sem honum hafi verið látið berast það til eyrna að það gæti valdið hjúskaparslitum. Vinum hans finnst hann algjör hetja fyrir hreinskiptni sína og telja hann hafa verið beittan hótunum og óeðlilegum þvingunum - en ég spyr hvort er maðurinn siðlaus, vitlaus eða hvort tveggja?

Hvað vakir fyrir Ásmundi Einari með makki við stuttbuxnadrengina sem nú leiða flokkana sem hafa alla tíð staðið með auðvaldinu og varið svikamylluna með kjafti og klóm!? Strákana sem hafa undanfarið tafið þingstörf og sýnt þingsköpum djúpa lítilsvirðingu? Þarf hann virkilega að láta segja sér að með því er hann að sýna samstarfsfólki sínu framkomu, sem gæti hæglega leitt til varanlegs trúnaðarbrests?

Ásmundur Einar hefur sterka sannfæringu gegn ESB aðild, en ef hann treysti þjóðinni myndi hann ekki hika við að leggja niðurstöðu aðildarviðræðna í dóm þjóðarinnar. Með því að reyna að koma í veg fyrir aðildarviðræður er hann að hindra að þjóðin geti tekið upplýsta afstöðu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband