Leita í fréttum mbl.is

málþing til heiðurs Sigríði Sigurðardóttur safnstjóra

Ég er að fara á málþing til heiðurs Sigríði Sigurðardóttur safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga til tuttugu ára. Á meira að segja að flytja nokkur orð en veit varla hvar ég á að byrja né enda því það væri svo margt hægt að segja um Sirrí, hennar störf og hennar miklu hæfileika til að virkja fólk með sér til góðra verka. Þetta gæti orðið langt málþing en örugglega ekki leiðinlegt! Ég er að spá í að hafa þetta lokaorðin í mínu framlagi:

Við getum kallað þá málsvörn hlutanna sem Sirrí er fremst meðal jafningja í einhverjum hversdagslegum fagheitum eins og minjavarsla, rannsóknir, safnastarf, safnfræðsla, kennsla, miðlun menningararfs. Gleymum því samt ekki að þetta er öðrum þræði boðun, boð um að vera með í leiknum, boð um að sjá veisluna, hafa hana í farangrinum og vera þannig í fylgdarliðinu sem ber menningararfinn mann fram af manni á höndum sér. Þetta starf verður aldrei hversdagslegt í meðförum fólks sem vinnur af skilningi á erindi sínu við sögu og samtíma, fólki sem hefur sín markmið skýr fyrir hugskotssjónum og útiljósið alltaf kveikt ef einhvern hlut skyldi bera þar að garði í byljum tímans.

ég vissi það!

Það er bara tímaspursmál hvenær við leggjum heiminn að fótum okkar með Djúpum...
mbl.is Íslenskt nammi vinsælt vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

mér var nær!

Ég fékk mjög undarlegt símtal áðan. Mér var boðið að troða upp, ásamt eiginmanni mínum sem jólasveinar á jólaskemmtun á Suðurlandi. Helgi hefur að vísu staðið sig vel í þessu hlutverki innan héraðs í Skagafirði, en ég vissi ekki að hróður hans hefði borist víðar. Meðan ég var að melta þessa óvæntu upphefð skaut viðmælandinn því að mér að símtalið væri verkefni í námskeiði í Viðburðastjórnun, sem ég kenni við Háskólann á Hólum... Blush Ég er semsagt ekkert fræg, bara gleymin - var í svipinn búin að steingleyma að ég hafði sett þeim það fyrir sem verkefni ráða mig sem skemmtikraft með símtali. Það er bót í máli að nemendur geta skemmt sér konunglega yfir þessu - vonandi skemmti ég mér eins yfir greinargerðunum þeirra um verkefnið!


lágmark einn í hóp og tveir í lest

segir sig kannski sjálft en í þessari frétt um félagslega einangrun innflytjenda kemur fram atriði sem er ekki bara þeim heldur getur víða verið til vandræða. Krafan um lágmarksfjölda þátttakenda í ýmsum námskeiðum leiðir mjög oft til að áfangar í framhaldsskóla og nauðsynleg endurmenntunarnámskeið eru ekki í boði fyrir fámenna hópa, hvort sem það er vegna fámennis á staðnum eða vegna þess að greinarnar eru fámennar sbr. iðngreinar sem er alltof lítil eftirspurn eftir að læra. Í mörgum tilfellum má leysa þetta með fjarnámi - en í sumum tilfellum á sú aðferð ekki við. Það er nauðsynlegt að setja einhverjar viðmiðanir um að það verði að bregðast við ef einhver þarf á námskeiði að halda að ekki þurfa að bíða endalaust eftir að nógu margir aðrir fáist til að taka það.

Annars er pínu skondið í þessari frétt að því er slegið upp í fyrirsögn að innflytjendur séu félagslega einangraðri úti á landi - en hvar? Könnunin náði bara til deilda úti á landi, hver er samanburðurinn þá? Það fylgir því ákveðin einangrun að flytja úr einu samfélagi í annað, jafnvel innanlands.


mbl.is Innflytjendur einangraðri úti á landi samkvæmt nýrri könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jorvik

Ég var á Englandi í síðustu viku og ákvað sem prófessor í menningartengdri ferðaþjónustu að bregða mér til York og skoða Jorvik víkingasýninguna sem er byggð á fornleifauppgreftri sem hófst þegar verið var að reisa verslunarmiðstöð í miðbænum. Þetta er nú frekar lítil sýning en að ýmsu leyti ágæt. Það er smá húmor í þessu á köflum, en kannski svolítið byggður á staðalmyndum: Það er búið að gera brúður byggðar á tilgátum um útlit þeirra einstaklinga sem hafa verið grafnir upp. Þessar brúður eru svo í eftirgerðinni af víkingabænum, uppteknar við ýmis störf - nema tveir smiðir sem sitja og gæða sér á nestinu sínu að því er virðist. Handan við stíginn stendur kona og lætur móðan mása og virðist vera að segja smiðunum alveg krassandi kjaftasögu eftir málrómnum að dæma. Annar smiðurinn hlustar af áhuga og segir annað slagið: Nú? Jaá, nújá?vikings1

farfuglaheimili í heimsklassa

3560 Til hamingju með að vera á lista yfir 10 bestu farfuglaheimili í heimi í ykkar flokki, farfuglaheimilið á Ósum í Húnaþingi vestra! Sjá nánar á vef Ferðamálastofu.


handverk og hefðir

ég er á leiðinni á ráðstefnu Heimilisiðnaðarfélagsins Handverkshefð í hönnun , vonandi verður tími til að skoða eitthvað af sýningunum sem eru í tengslum við þetta. Ég ætla að kynna Fornverkaskólann aðeins í leiðinni en sú hugmynd er alveg að gera sig, fullt af fólki vill læra vinnubrögðin sem þarf til að halda við gömlu handverki í byggingalist. Kem við í Glaumbæ til að halda fund í menningar- og kynningarnefnd um safnasvæðið, við þurfum að vinna í því að gera það betur úr garði til að taka við auknum gestakomum. Það dregur ekki úr áhuganum að fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós skála frá landnámsöld. Semsagt, athyglin er á menningararfinn þessa stundina. Svo er Laufskálarétt um helgina, reyndar er hún eiginlega eitt besta dæmið um hvernig hefðir og verkmenning (að smala hrossunum úr afrétt og rétta) verður að viðburði - hátíð í samtímanum.


í útlöndum

Elísabet vinkona er á Írlandi ein að skrifa og skrifar um lonelyness á blogginu sínu. Samt er allt fullt af fólki, ókunnugu fólki. Ég sendi henni ljóð, sem ég man ekkert hvenær ég samdi en það er um að vera ein í útlöndum

Ein

Það er svo gott

að ganga  ein

um óþekkt stræti

 

að hlusta ein

á útlent regn

 

að vera ein

í ókunnum stað

 

þó gæti verið gott

 

á götunni fram eftir veg

að heyra fleiri fóta tak

 


haustið góða, rautt og gult -

ég er komin til byggða, komst í réttirnar, dró nokkrar hyrndar ær - ber þess enn merki en hélt röddinni - sem eins gott. Kennslan í Háskólanum á Hólum er nefnilega komin á fullt og ég kenni aðferðafræði í stífri lotu fyrsta mánuðinn. Nýnemavikan, sem áður hét fjarnemavikan var mjög vel heppnuð í ár (http://www.holar.is/fr456.htm) og eins og svo oft áður er ég með alveg einstaklega efnilegan nemendahóp. Mér finnst reyndar að mér hafi fundist þetta á hverju ári meira og minna allan minn kennsluferil. Það hlýtur bara að benda til þess að heimur fari batnandi!

göngur og réttir

ég segi nú bara eins og skáldið forðum: Eins mig fýsir alltaf þó, aftur að fara í göngur... Það er á morgun sem bændur og búalið í Viðvíkursveit og Hólahrepp hinum forna smala. Ég er ekki bóndi og tæplega búalið, en fæ samt að smala. Það er ótrúlega skemmtilegt, jafnvel í fyrra þegar við riðum frameftir með húðaslagveðursrigningu í bakið og hún breyttist í slyddu þegar ofar dró... Mér varð hugsað til forfeðra okkar og formæðra. Úr því þau höfðu þetta oftast af - þá var mér engin vorkunn á stríðaldri meri, stríðalin sjálf og í skjólfötum sem þekktust ekki þá. Svo hitnar manni náttúrlega af smalaæðinu! Við Grána förum fram á Kolbeinsdal á eftir og  vonandi á Heljardal á morgun. Séð af Elliða yfir Kolbeinsdal í Heljardal á sumardegi.

HeljardalursedafEllida


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband