Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007
29.4.2007 | 09:52
að trúa á eitthvað skemmtilegt
Amma systkina minna var víst vön að segja að fólk yrði leiðinlegt ef það tryði ekki á neitt skemmtilegt. Það er líklega rétt og hér í Skagafirði búum við svo vel að í aðdraganda kosninga, á harða sprettinum sem hæglega getur leiðst útí leiðindi, er Sæluvika, menningar og listahátíð í Skagafirði. Sæluvikan á sér sögu aftur á 19. öld þegar Skagfirðingar gerðu sér jafnan glaðan dag í tengslum við sýslufund á Sauðárkróki. Mættu menn læra af því enn í dag og reyna að vera svolítið skemmtilegir í stjórnmálum og stjórnsýslu jafnt ríkis sem sveitarfélaga. Gróðahyggja og sérhagsmunapot eru líklega ekki hugsjónir sem gera fólk skemmtilegt, ef marka má litlausa kosningabaráttu þreyttra valdhafa Íslands. Það er greinilega skemmtilegra hinumegin á vegasaltinu þar sem jafnaðarmenn, málsvarar þeirra sem minna mega sín, náttúrverndarsinnar og aðrir andstæðingar auðlindabrasksins keppast um að hanga á slánni. Þar er Samfylkingin þungavigtin með frumkvæði að setja málin á dagskrá með vandaðri og ítarlegri stefnuskrá meðan aðrir láta sér nægja þetta hefðbundna slagorðaglamur og standa svo á gati þegar þeir eru spurðir hvernig eigi að framkvæma slagorðin, hvað á að fara aftar í forgangsröðina eða hvernig eigi að fjármagna hlutina. Það er ekkert leiðinlegt að leggjast í þá vinnu að velja verkefnin og finna fjármagnið ef unnið er í anda stórra hugsjóna um jafnrétti, frelsi og bræðralag fólks, fyrirtækja, byggðarlaga og atvinnugreina - það er skemmtilegt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2007 | 23:15
gleðilegt sumar!
það byrjaði vel - fraus saman vetur og sumar sem kvað vita á gott. Líklega gott gengi Samfylkingarinnar í komandi kosningum!
Þegar við hjónin vorum að drekka morgunkaffið settist maríuerla á eldhúsgluggann til að samfagna okkur á þessum sumardegi. Við fórum í fyrsta reiðtúr sumarsins, Grána (sem þið sjáið hér með mér á síðunni) var sjálfri sér lík þetta eðalhross. Til að tryggja að engar hitaeiningar töpuðust við útivist og hreyfingu mættum við bæði í menningarkaffi nemenda Grunnskólans á Hólum og vöfflukaffi á kosningaskrifstofunni á Króknum. Þar var auðvitað vor í lofti, enda fylgið á uppleið!
Gleðilegt sumar kæru vinir nær og fjær!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.4.2007 | 15:00
farin af fjölunum
síðasta aukasýning á Ef væri ég gullfiskur hjá Leikfélagi Hofsóss var á laugardaginn í miðjum landsfundi Samfylkingarinnar (ok það var líka sextugafmæli og fermingarveisla fyrir sunnan) þannig að ykkar einlæg eyddi miklum tíma á þjóðvegi 1.
Þetta var fín sýning, góður salur og mikil orka. Það var frábært að hópur úr leikfélaginu í Stafholtstungum í Borgarfirði mætti, en þau höfðu einmitt sett þetta sama leikrit upp fyrir nokkrum árum. Við fundum strax að það var fólk í salnum sem þekkti verkið. Þau stoppuðu aðeins og spjölluðu eftir sýningu og skoðuðu aðstæðurnar hjá okkur, leikmynd og allt það. Höfðaborg er náttúrlega meiriháttar hús; fínt svið, góður hljómburður og tekur fleiri hundruð manns.
Það er reyndar svolítið fyndið að ég er farin að nota frasa úr leikritinu í tíma og ótíma án þess að taka eftir því - og þetta er nú ekki mjög djúpt verk með fullri virðingu fyrir Árna Ibsen sem höfundi þá er þetta farsi sem gengur mjög mikið útá aðra hluti en textann. Þannig að þetta gerir mig nú ekki gáfulegri...
Við Helgi tókum tvo af gullfiskunum í fóstur eftir sýningu, þau heita náttúrlega Stína og Berti...
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2007 | 12:12
nei Steingrímur J er ekki kominn í Samfylkinguna
þetta var bara misskilningur. Fjarvera Steingríms J úr mynd við kynningu á stefnu Vinstri grænna og nævera hans í mynd við opnun kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar í Reykjavík segja ekki alla söguna. Það er ekki allt sem sýnist. Hann er semsagt enn formaður Vinstri grænna.
Þetta með að hann og hinir Vg kallarnir voru ósýnilegir í fréttunum af kynningu stefnu þeirra er meira svona eins og í fluginu. Flugstjórinn er í flugstjórnarklefanum og sést ekki úr farþegarýminu, þar eru það flugfreyjurnar sem eru sýnilegar og sjá um samskiptin við farþegana.
Ég er samt ekki búin að fatta hvað hann var að gera þarna í pylsupartíinu, kannski var hann bara svangur og langaði í mat hjá mömmu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2007 | 07:53
Steingrímur J. genginn í Samfylkinguna aftur
Ég var einmitt að furða mig á því að hann tók ekki þátt í því að kynna kosningastefnu flokksins um daginn. Í sjónvarpsfréttum af þeim fundi sást Steingrímur hvergi - reyndar sást enginn af körlunum úr forystu Vinstri grænna, eiginlega enginn kall yfirleitt.
Nú liggur þetta ljóst fyrir, ég sá það í sjónvarpsfréttunum í gær - talið var að vísu ekki á, en ég sá að Steingrímur er kominn heim í Samfylkinguna. Mættur í pylsupartí á kosningaskrifstofunni í Reykjavík og Ingibjörg Sólrún bauð honum pylsu, einhverntíma hefði nú verið slátrað kálfi en látum það vera.
11.4.2007 | 13:08
enski boltinn??!
9.4.2007 | 12:49
háskóla á hverja þúfu!
Einn af bloggvinum mínum veltir því fyrir sér hvað þurfi til að vera háskóli og hvort þeim fjölgi hérlendis að óþörfu, sjá http://sas.blog.is/blog/sas/entry/171300/. Ég er hinsvegar beinn þátttakandi í uppbyggingu Háskólans á Hólum sem er eftir atvikum elsti eða yngsti háskóli landsins eftir því hvort miðað er við 1106 eða 2007. Það er rétt sem Sigurður bendir á að í íslenskum háskólalögum er ekki gerður greinarmunur á því sem t.d. á ensku væri university, polytechnic eða university college. Það er heldur enginn greinarmunur gerður á því hvort viðkomandi stofnun er rannsóknastofnun jafnframt því að vera kennslustofnun. Þegar frumvarp til háskólalaga lá fyrir og umsagnar skólastjórnar Myndlista- og handíðaskólans sáluga var óskað, man ég eftir að við gagnrýndum þetta atriði einmitt. Háskólinn á Hólum er nefnilega númer tvö af íslenskum háskólum sem ég tek þátt í að færa af einhverju óskilgreindu svæði yfir í ramma gildandi laga um háskóla, hinn var MHÍ sem varð að deild í Listaháskóla Íslands.
Þetta er ákveðinn galli á lögunum, en það segir hinsvegar lítið um hvernig staðan er á hinum ýmsu stofnunum sem samkvæmt þeim geta kallað sig háskóla uppá íslensku. Mynd- og hand átti kröfu til þessarar skilgreiningar fyrst og fremst vegna þess að hann stóð sambærilegum skólum erlendis jafnfætis í kennslu á sínu sviði og var reyndar gegnum nemendaskiptaáætlanir Evrópusambandsins önnum kafinn við að mennta erlenda stúdenta til BFA gráðu meðan hann sjálfur mátti ekki veita slíka.
Háskólinn á Hólum kallar sig reyndar Hólar University College uppá ensku þar sem þar eru einungis þrjár deildir og því langt í land að vera sú alfræðistofnun sem university stendur fyrir. Hins vegar hefur metnaður okkar lengi staðið til að vera í fremstu röð á þeim sviðum sem við stundum rannsóknir og kennslu á, því leggjum við mikla áherslu á að standast jafningjamat innan háskólasamfélagsins og á gæði kennslunnar.
Áhyggjur af fjölda stofnana eru að mínu mati ekki það sem ætti að vega þyngst í umræðunni um íslenska háskóla heldur hitt hvernig þeim gengur að uppfylla kröfur um gæði kennslu og rannsókna annarsvegar og hinsvegar hvernig þeim gengur að verða hluti af því menntasamfélagi sem íslenskir háskólanemar eiga að hafa greiðan aðgang að hvar sem þeir eru í sveit settir. Til þess að byggja þetta menntasamfélag þarf háskólafólk að leggja nokkuð á sig í samstarfi, hugsa íslenska háskóla meira eins og klasa fyrirtækja sem vissulega á í samkeppni en mun aldrei standa sig í henni nema með samstarfi.
Fjöldi háskóla er engin ógnun við þekkingarsamfélagið, hitt er alvarlegri ógnun að um 40% íslendinga á vinnumarkaði hefur aðeins lokið grunnskólaprófi. Því meira og aðgengilegra námsframboð á framhalds- og háskólastigum því betra. Hitt er galli að staða rannsókna skuli ekki vera skilgreindari og ekki síst að fjármögnun þeirra er svo veik sem raun ber vitni. Það er þó vert að muna að rannsóknasamfélag er ekki landfræðilega afmarkað og hreppamörk hafa sem betur fer lítil áhrif á það.
8.4.2007 | 12:53
gleðilegir páskar
húsið er búið að vera fullt af góðum gestum síðan á miðvikudag - páskar eins og þeir gerast bestir. Guðmundur Steingríms hitti naglann á höfuðið í bakþönkum í Fréttablaðinu um páskana, tiltölulega tilstandslaust frí með miklum samskiptum við vini og vandamenn. Eftir nokkurra daga frí er það ljóst að líklega er eitt mikilvægasta baráttumálið í íslensku samfélagi að stytta vinnutímann hjá börnum og fullorðnum. Ég segi börnum, því viðvera barna á leikskólum, skólum og skóladagvist er allt uppí 9 tímar - og þá er ekki talin með tilfallandi pössun.
Það er ekki nóg með að flestir vinni langan vinnudag, meirihluti þjóðarinnar hrúgar sér niður á smáblett sem ber ekki meira umferðarálag þannig að fólk í þessu fámenna þjóðfélagi býr við umferðaröngþveiti eins og um milljónaborg væri að ræða. Þetta hópsálarlíf veldur svo hækkandi fasteignaverði, álagi á umhverf og mannlíf sem aftur leiðir til þess að fólk vinnur meira til að standa undir öllu geiminu. Þetta er að gera alla vitlausa - hvað erum við eiginlega að meina með því að byggja upp svona samfélag?
Það er nóg pláss fyrir utan svifryksbeltið og einn af kostunum við að færa sig aðeins útfyrir það er að þegar fólk kemur í heimsókn þá er það alvöru heimsókn, ekki bara rétt að kíkja.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2007 | 11:40
fælingarmáttur lýðræðisins?!
Ég hélt mig væri að dreyma einhverja vitleysu í morgun þegar ég heyrði í gufunni að einhverjir aðilar væru nú uppfullir af áhyggjum af því að íbúalýðræði fæli erlenda fjárfesta frá Íslandi!!! Það er bara gott mál ef Hafnfirðingum hefur tekist með sinni atkvæðagreiðslu að þvo burt bananalýðveldisstimpilinn sem stóriðjustjórnvöldin hafa sett á Ísland með orkuútsölunni sem þau hafa staðið fyrir undanfarna áratugi.
Er þessu fólki alvara með því að leggja það inní umræðuna í einu elsta lýðræðisþjóðfélagi heims að við megum ekki fæla erlend stórfyrirtæki með atkvæðagreiðslum? Er þetta ekki bara bergmál frá 3. heiminum þar sem fólki er tekinn vari við að fæla erlend stórfyrirtæki frá með verkalýðsbaráttu, kröfum um mannsæmandi aðbúnað og kjör og afnámi barnaþrælkunar? Þetta er nú meiri undirlægjuhátturinn!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007