Leita í fréttum mbl.is

viðburðastjórnun

var þema síðustu viku; ég fór suður með nemendum mínum við Háskólann á Hólum en 2. og 3. ár var að vinna verkefni í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu IFEA samtakanna - International Festivals and Events Association í samvinnu við Höfuðborgarstofu. Þetta var 16 manna hópur frá okkur og 5 frá H.Í., þau stóðu sig vel í að vera ráðstefnugestum til aðstoðar, taka niður glósur í fyrirlestrum og vera ráðstefnuskipuleggjendum innan handar ef eitthvað kæmi upp - sem gerðist nú sem betur fer ekki neitt alvarlegt! Erlendu gestirnir höfðu margir orð á því að nemendur hér virtust meira fagfólk en þeir ættu að venjast heiman frá sér - einn orðaði það þannig við mig að hann sæi nú aldrei stúdenta nema fremst í röðinni í matinn á ráðstefnum en hérna litu nemendur á sig sem gestgjafa. Kannski hefur þessi ágæti maður - sem er reyndar í fremstu röð viðburðastjórnenda í Evrópu, eitthvað neikvætt viðhorf gagnvart háskólastúdentum en það gæti líka munað því að hér fer fólk í háskóla almennt með meiri starfsreynslu en í nágrannalöndum. Mínir nemendur hafa flestir unnið við ferðaþjónustu og/eða viðburðastjórnun og eru því vel viðræðuhæfir við fagfólkið sem sótti ráðstefnuna. Allavega var ég virkilega stolt af mínu fólki  á vaktinni með bros á vör að gæta þess að gestirnir nytu ráðstefnunnar sem best.

Í beinu framhaldi af þessari fagráðstefnu var fræðileg ráðstefna Journeys of expression VII sem fjallaði um hátíðir og ferðaþjónustu tengda sjó og vötnum. Það var Center for Tourism and Cultural Change sem er frumkvöðull að þessari ráðstefnuröð og hér var það Anna Karlsdóttir frá Háskóla Íslands sem var aðalskipuleggjandinn. Þetta var merkileg ráðstefna að því leyti að þarna var fólk mjög víða að úr heiminum; Taiwan, Indlandi, Nova Scotia (maðurinn er reyndar frá Ghana en talaði um ferðaþjónustu í Nova Scotia), Rúmenía, Finnland, Ísland, Bretland... Það var rætt um allt mögulegt frá hönnun skemmtiferðaskipa, hvernig smíði skemmtiferðaskipa getur verið aðdráttarafl, sjávarréttaslóðir, ánægjuvog gesta á menningarhátíðum og svo mætti lengi telja. Svo hafði Anna samið við Völu Þórsdóttur leikkonu að koma með uppákomu í lokahófinu og hún var algerlega óborganleg í hlutverki frumkvöðuls í ferðaþjónustu...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábært, svona á að standa að því að auglýsa ferðaþjónustu.  Mikið hefur þetta verið skemmtilegt og fjölbreytt með allt þetta erlenda fólk allstaðar að úr heiminum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2008 kl. 13:21

2 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Þetta var skemmtileg ráðstefna og gaman að hlusta á þessa fyrirlesara. 

Þórður Ingi Bjarnason, 3.3.2008 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband