Leita í fréttum mbl.is

háskóla á hverja þúfu!

Einn af bloggvinum mínum veltir því fyrir sér hvað þurfi til að vera háskóli og hvort þeim fjölgi hérlendis að óþörfu, sjá http://sas.blog.is/blog/sas/entry/171300/. Ég er hinsvegar beinn þátttakandi í uppbyggingu Háskólans á Hólum sem er eftir atvikum elsti eða yngsti háskóli landsins eftir því hvort miðað er við 1106 eða 2007. Það er rétt sem Sigurður bendir á að í íslenskum háskólalögum er ekki gerður greinarmunur á því sem t.d. á ensku væri university, polytechnic eða university college. Það er heldur enginn greinarmunur gerður á því hvort viðkomandi stofnun er rannsóknastofnun jafnframt því að vera kennslustofnun. Þegar frumvarp til háskólalaga lá fyrir og umsagnar skólastjórnar Myndlista- og handíðaskólans sáluga var óskað, man ég eftir að við gagnrýndum þetta atriði einmitt. Háskólinn á Hólum er nefnilega númer tvö af íslenskum háskólum sem ég tek þátt í að færa af einhverju óskilgreindu svæði yfir í ramma gildandi laga um háskóla, hinn var MHÍ sem varð að deild í Listaháskóla Íslands.

Þetta er ákveðinn galli á lögunum, en það segir hinsvegar lítið um hvernig staðan er á hinum ýmsu stofnunum sem samkvæmt þeim geta kallað sig háskóla uppá íslensku. Mynd- og hand átti kröfu til þessarar skilgreiningar fyrst og fremst vegna þess að hann stóð sambærilegum skólum erlendis jafnfætis í kennslu á sínu sviði og var reyndar gegnum nemendaskiptaáætlanir Evrópusambandsins önnum kafinn við að mennta erlenda stúdenta til BFA gráðu meðan hann sjálfur mátti ekki veita slíka.

Háskólinn á Hólum kallar sig reyndar Hólar University College uppá ensku þar sem þar eru einungis þrjár deildir og því langt í land að vera sú alfræðistofnun sem university stendur fyrir. Hins vegar hefur metnaður okkar lengi staðið til að vera í fremstu röð á þeim sviðum sem við stundum rannsóknir og kennslu á, því leggjum við mikla áherslu á að standast jafningjamat innan háskólasamfélagsins og á gæði kennslunnar.

Áhyggjur af fjölda stofnana eru að mínu mati ekki það sem ætti að vega þyngst í umræðunni um íslenska háskóla heldur hitt hvernig þeim gengur að uppfylla kröfur um gæði kennslu og rannsókna annarsvegar og hinsvegar hvernig þeim gengur að verða hluti af því menntasamfélagi sem íslenskir háskólanemar eiga að hafa greiðan aðgang að hvar sem þeir eru í sveit settir. Til þess að byggja þetta menntasamfélag þarf háskólafólk að leggja nokkuð á sig í samstarfi, hugsa íslenska háskóla  meira eins og klasa fyrirtækja sem vissulega á í samkeppni en mun aldrei standa sig í henni nema með samstarfi.

Fjöldi háskóla er engin ógnun við þekkingarsamfélagið, hitt er alvarlegri ógnun að um 40% íslendinga á vinnumarkaði hefur aðeins lokið grunnskólaprófi. Því meira og aðgengilegra námsframboð á framhalds- og háskólastigum því betra. Hitt er galli að staða rannsókna skuli ekki vera skilgreindari og ekki síst að fjármögnun þeirra er svo veik sem raun ber vitni. Það er þó vert að muna að rannsóknasamfélag er ekki landfræðilega afmarkað og hreppamörk hafa sem betur fer lítil áhrif á það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ásbjörnsson

Ég hef reyndar pínu áhyggjur af annars konar námi, þ.e. iðnnámi.  Sbr. þessa færslu frá 21. feb. sl. 

Sigurður Ásbjörnsson, 10.4.2007 kl. 00:01

2 Smámynd: Unnar Rafn Ingvarsson

Þetta er fín greining hjá þér og hárrétt.

Unnar Rafn Ingvarsson, 10.4.2007 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband