Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

börn og unglingar í aðalhlutverki

í héraðsfréttablaðinu Feyki, en starfssvæði þess eru Húnavatnssýslurnar og Skagafjörður. Það er gaman að fylgjast með því hvað ritstjórinn (sem núna er reyndar að auglýsa eftir blaðamanni) skrifar mikið um yngsta fólkið á svæðinu. Það er auðvitað ekkert leiðinlegt því það er nóg að gera hjá börnum og unglingum hér, nú eru árshátíðir skólanna að bresta á með tilheyrandi metnaði í leiklist og tónlistarflutningi, félagsmiðstöðvarnar búnar að halda sína árlegu söngkeppni og allt að gerast í íþróttum.

En Guðný missti af einum merkisviðburði; Menningarkaffi níundu bekkinga í Grunnskólanum austan vatna (Hofsós-Hólar-Sólgarðar) sem að þessu sinni var haldið í Ketilási í Fljótum. Krakkarnir þjóna, laga kaffidrykki, baka og eru orðin hin fagmannlegustu í þessu. Enda eru sum búin að vera með í verkefninu í þrjú ár, en þetta er lífsleikniverkefni. Að þessu sinni var ein af þeirra gömlu skólafélögum Dana Ýr Antonsdóttir að skemmta með þrem skólafélögum sínum frá Svíþjóð en þau eru saman í flottum þjóðlagakvartett.

Það var frábært að sjá hvað fólk hafði fjölmennt bæði úr Fljótunum og reyndar víða að úr Skagafirðinum og átti góða stund þarna fyrir tilstilli krakkanna okkar og kennaranna þeirra.


flott

en það sem virkilega skiptir máli er bara að drífa sig vestur - nú eða norður eða austur eftir því sem hugurinn girnist - hvaða vit er í því að húka í svifrykinu fyrir sunnan og hafa skoðanir á því hvernig kaupin ættu að gerast á eyrinni fyrir austan - eða norðan, eða vestan eftir atvikum?

Það er til dæmis allt að gerast heima hjá mér í Skagafirði; viltu verða framkvæmdastjóri vaxtarsamnings? ertu hjúkrunarfræðingur eða sjúkraliði og viltu vinna á heilsustofnun með flotta endurhæfingaraðstöðu? viltu læra fiskeldi eða ferðaþjónustu eða hrossarækt eða viltu vera með í að stofna nýjan vinnustað í skjalavörslu og skráningu, eða viltu byggja upp ferðaþjónustu? Ert þú rétta manneskjan í starf mastersnema í fiskalíffræði eða vatnavistfræði?  Það er allt í boði og Skagafjörður skín við sólu sem aldrei fyrr!

Komdu bara norður, þú þarft ekkert endilega að fara aftur!


mbl.is Bloggarar taka sig saman og vilja „bjarga Vestfjörðum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

útlitspressan

á fermingarbörnin er áhyggjuefni - sem betur fer held ég að sé að verða vakning um hættuna af ljósabekkjum en það hryggði mig óskaplega að vera vitni að ráðagerðum kvenna um að setja dætur sínar í átak og aðhald holdafarslega fyrir ferminguna. Er það nema von að konur festist í vítahring vanmáttarkenndar vegna útlitsins ef mömmurnar leggjast á árarnar með fjölmiðlunum, vinunum, tískuhúsunum, "heilsuiðnaðinum" og snyrtivöruframleiðendunum að segja okkur strax á barnsaldri að við séu ekki nógu fallegar? Þarna er ekki síður þörf á forvörnum en t.d. í sambandi við ofneyslu vímuefna, við vitum að fjöldi fólks skaðast varanlega á sál og líkama, jafnvel deyr úr sjúkdómum eins og átröskun. Fyrir nú utan að skert sjálfstraust m.a. vegna útlitsins gerir einstaklinga varnarlausari gegn margskonar misnotkun.

Koma svo foreldrar: Standið með fermingarbörnunum og látið þau finna að þau eru flott eins og þau eru - fín föt, snyrting og hárgreiðsla er hluti af því að halda hátíð og vera í hlutverki, en ekki vegna þess að barnið þurfi extreme makeover í tilefni dagsins!


mbl.is Einn ljósatími eykur hættu á krabbameini um 22%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

lífshlaupið

átak lýðheilsustofnunar og fleiri aðila er eiginlega ferlega sniðug og lúmsk hugmynd til að fá fólk til að hreyfa sig. Um þetta leyti eru margir að guggna á nýársheitunum í ræktinni og heilsuátakinu og þá kemur tilboð um að taka sig saman á vinnustaðnum eða vera í einstaklingskeppni við sjálfan sig til að efla heilsuna. Vinnufélagar mínir Sólrún og Guðrún Stefáns komu upp liði á vinnustaðnum - en ég er steinhissa á að ekki skuli vera fleiri lið í Sveitarfélaginu Skagafirði því það er mjög almenn þátttaka í íþróttum og útivist hérna. Kannski er þetta bara orðinn svo fastur liður í lífsstílnum að fólk tekur ekki svona átaksverkefni til sín? Það er þá gott - en mér veitti ekkert af sparki í rassinn, þó hef ég góðan stuðning heima þar sem er íþróttaálfurinn sonur minn að veita aðhald og ráðgjöf svo sú gamla endist nú eitthvað fram á öldina...


viðburðastjórnun

var þema síðustu viku; ég fór suður með nemendum mínum við Háskólann á Hólum en 2. og 3. ár var að vinna verkefni í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu IFEA samtakanna - International Festivals and Events Association í samvinnu við Höfuðborgarstofu. Þetta var 16 manna hópur frá okkur og 5 frá H.Í., þau stóðu sig vel í að vera ráðstefnugestum til aðstoðar, taka niður glósur í fyrirlestrum og vera ráðstefnuskipuleggjendum innan handar ef eitthvað kæmi upp - sem gerðist nú sem betur fer ekki neitt alvarlegt! Erlendu gestirnir höfðu margir orð á því að nemendur hér virtust meira fagfólk en þeir ættu að venjast heiman frá sér - einn orðaði það þannig við mig að hann sæi nú aldrei stúdenta nema fremst í röðinni í matinn á ráðstefnum en hérna litu nemendur á sig sem gestgjafa. Kannski hefur þessi ágæti maður - sem er reyndar í fremstu röð viðburðastjórnenda í Evrópu, eitthvað neikvætt viðhorf gagnvart háskólastúdentum en það gæti líka munað því að hér fer fólk í háskóla almennt með meiri starfsreynslu en í nágrannalöndum. Mínir nemendur hafa flestir unnið við ferðaþjónustu og/eða viðburðastjórnun og eru því vel viðræðuhæfir við fagfólkið sem sótti ráðstefnuna. Allavega var ég virkilega stolt af mínu fólki  á vaktinni með bros á vör að gæta þess að gestirnir nytu ráðstefnunnar sem best.

Í beinu framhaldi af þessari fagráðstefnu var fræðileg ráðstefna Journeys of expression VII sem fjallaði um hátíðir og ferðaþjónustu tengda sjó og vötnum. Það var Center for Tourism and Cultural Change sem er frumkvöðull að þessari ráðstefnuröð og hér var það Anna Karlsdóttir frá Háskóla Íslands sem var aðalskipuleggjandinn. Þetta var merkileg ráðstefna að því leyti að þarna var fólk mjög víða að úr heiminum; Taiwan, Indlandi, Nova Scotia (maðurinn er reyndar frá Ghana en talaði um ferðaþjónustu í Nova Scotia), Rúmenía, Finnland, Ísland, Bretland... Það var rætt um allt mögulegt frá hönnun skemmtiferðaskipa, hvernig smíði skemmtiferðaskipa getur verið aðdráttarafl, sjávarréttaslóðir, ánægjuvog gesta á menningarhátíðum og svo mætti lengi telja. Svo hafði Anna samið við Völu Þórsdóttur leikkonu að koma með uppákomu í lokahófinu og hún var algerlega óborganleg í hlutverki frumkvöðuls í ferðaþjónustu...


« Fyrri síða

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband