Leita í fréttum mbl.is

Gengið á Elliða

HeljardalursedafEllida

Þarna sést niður í Kolbeinsdal og inná Heljardal, Helgi Thorarensen tók myndina. Við létum loksins verða af því hjónin að ganga á Elliða, sem er hæstur tæpir 900 m yfir sjávarmál og bara hérna í bakgarðinum okkar á Hólum eða þannig. Þetta er mjög skemmtileg ganga, það er hægt að aka slóða inn Víðinesdal og ganga slóðann áfram uppá Almenningsháls þarsem liggur svo brött leið niður í Kolbeinsdal - eða halda til vinstri eða í vestur sem leið liggur út eggjarnar á Elliða. Þær eru víða dálítið mjóar og ansi hátt að líta niður í Kolbeinsdalinn, hrossin í afréttinni eins og pínulítil piparkorn til að sjá. Nema ég sé farin að tapa sjón! Þegar upp er komið sér maður inná Tungnahrygg, á Heljardalsheiði og svo frábær útsýn út Hjaltadal og Kolbeinsdal á Skagafjörð. Við fórum um hádegi og vorum komin heim um níuleytið, þá var allt baðað kvöldsól og Hólabyrðan orðin rjóð og undirleit eins og hún á vanda til. Það lítur út fyrir gott berjasumar, mikið á lynginu en berin eru enn smá. Það kom mér dálítið á óvart hvað það er fjölbreytt berg í Elliðanum, sandsteinn alveg í hæstu hæðum meira að segja. Einmitt þegar ég var orðin dálítið svona góð með mig yfir fjallgöngunni komum við þar að sem fimm feitir hrútar lágu og kældu sig á fjallstoppnum, flúnir úr hitanum þess fullvissir að það sé kalt á toppnum. Þeir eru náttúrlega fótvissari en ég, en að stirðleika og holdafari sýndist mér við að öðru leyti í svipuðu formi...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir

RSS-straumar

Háskólinn á Hólum

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband